Fréttir

Haraldur Franklín og Guðmundur Ágúst úr leik á Spáni
Haraldur Franklín Magnús slær upphafshögg á 10. braut á fyrsta hring Challenge de Espana. Ljósmynd: Helga Björnsdóttir
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
föstudaginn 20. maí 2022 kl. 16:33

Haraldur Franklín og Guðmundur Ágúst úr leik á Spáni

Okkar menn á Áskorendamótaröðinni, Haraldur Franklín Magnús úr GR og Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GKG, komust ekki í gegnum niðurskurðinn á Challenge de Espana en leikið er á Novo Sankti Petri vellinum á Iberostar í Cadiz á Spáni.

Þeir léku báðir hringina tvo á samtals 11 höggum yfir pari en aðstæður á Spáni voru mjög erfiðar í gær og í dag. Áætluð niðurskurðarlína miðast við 6 högg yfir par en ekki hafa allir kylfingar lokið leik í dag.

Það er Svíinn Mikael Lindberg sem leiðir í klúbbhúsi á 2 höggum undir pari.

Staðan á mótinu

Haraldur Franklín lék á 73 höggum eða á 1 höggi yfir pari á fyrsta hring en á 82 höggum eða á 10 höggum yfir pari á öðrum hring.

Skorkort Haralds Franklíns

Haraldur sagði í stuttu spjalli við Kylfing að mótið hafi verið erfitt og það hafi ekki gengið nægilega vel.

„Það var mikið rok og barningur báða dagana. Þeir sem fóru út fyrir hádegi í gær fengu meira logn en það var hvasst eftir hádegi í gær og mikið rok í dag. Þó voru einhverjir sem náðu að spila vel í dag sem er virkilega vel gert.“

Haraldur segir sveifluna ekki alveg vera þar sem hann vill hafa hana í augnablikinu.

„Ég er að vinna í nokkrum atriðum. Það er enn erfiðara að vera ákveðinn á högg og ákvarðanir í rokinu þegar traustið er ekki alveg til staðar.“

„Það þýðir ekkert að svekkja sig. Ég hef áður spilað slæma hringi og mun því miður spila fleiri slæma hringi. Ég veit hvað ég þarf að gera. Ég þarf að æfa meira og passa vel upp á líkamann. Það er nóg af golfi framundan og ég þarf að byggja upp og treysta því sem ég er að gera,“ sagði Haraldur Franklín Magnús að lokum.

Nokkrir Íslendingar fylgdust með upphafshöggi Haralds Franklíns á 10. braut í gær. Ljósmynd: Helga Björnsdóttir

Guðmundur Ágúst lék á 76 höggum eða á 4 höggum yfir pari á fyrsta hring en á 79 höggum eða á 7 höggum yfir pari á öðrum hring.

Skorkort Guðmundar Ágústs

Guðmundur tók, í stuttu spjalli við Kylfing, undir orð félaga síns.

„Þetta voru einhverjar erfiðustu aðstæður sem ég hef spilað í eins og sjá má á skorinu. Mikill stöðugur vindur og enn verra í hviðum. Völlurinn var einnig frekar harður og flatirnar frekar litlar. Nú er bara að koma sér í gírinn fyrir næsta mót,“ sagði Guðmundur Ágúst Kristjánsson að lokum.

Challenge de Espana er fyrsta mótið í Evrópu á þessu keppnistímabili Áskorendamótaraðarinnar en fyrstu sex mótin fóru fram í febrúar og mars í Suður-Afríku.

Næsta mót á Áskorendamótaröðinni fer fram í Skotlandi dagana 26.-29. maí nk. Þeir Haraldur Franklín og Guðmundur Ágúst verða báðir meðal þátttakenda á mótinu.