Fréttir

Golfið farið af stað á Ólympíuleikunum - Straka efstur eftir fyrsta hring
Sepp Straka er efstur eftir fyrsta hring á Ólympíuleikunum
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
fimmtudaginn 29. júlí 2021 kl. 08:40

Golfið farið af stað á Ólympíuleikunum - Straka efstur eftir fyrsta hring

Golfkeppni Ólympíuleikanna hófst í nótt á hinum sögufræga Kasumigaseki Country Club í Saitama í Japan.

60 keppendur leika á mótinu og er enginn niðurskurður eftir 2 hringi eins og á hefðbundnum mótum.

Á fyrsta hring var það Austurríkismaðurinn Sepp Straka sem lék best allra á 63 höggum eða 8 höggum undir pari. Jazz Janewattananond  frá Taílandi kemur næstur höggi á eftir.

Stærstu nöfnin ef svo má segja eru aðeins á eftir og þurfa að gera betur á næstu hringjum ef þau ætla að blanda sér í baráttuna um verðlaun. Sem dæmi má nefna að Rory McIlroy lék á 2 höggum undir pari og Justin Thomas á pari. Það gekk þó aðeins betur hjá Paul Casey sem lék á 4 höggum undir pari og Xander Schauffele og Patrick Reeed léku á 3 höggum undir.

Heimamaðurinn Hideki Matsuyama lék á 2 höggum undir pari en hann á marga sigra að baki á þessum velli.

Keppni í kvennaflokki hefst 4. ágúst.

Staðan í mótinu

Óhætt er að segja að keppnisbúningur Cameron Smith sem sjá má hér að neðan hafi vakið athygli.