Fréttir

Góður rekstur hjá Golfklúbbi Akureyrar
Veigar Heiðarsson var kjörinn kylfingur GA 2023.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 18. desember 2023 kl. 17:23

Góður rekstur hjá Golfklúbbi Akureyrar

Rekstur Golfklúbbs Akureyrar gekk vel á árinu en hagnaður ársins nam tólf milljónum króna sem var aðeins minni hagnaður en árið á undan. Stjórn GA var endurkjörin og sömuleiðis formaðurinn, Bjarni Þórhallsson.

Rekstrartekjur ársins námu 246 milljónum króna en hagnaður fyrir fjármagnsliði nam 31 milljón króna. Starf ársins hjá klúbbnum gekk vel. Ragnar Orri Jónsson fékk háttvísibikar GA en hann er ungur og efnilegur kylfingur og lék í meistaraflokki á meistaramóti GA og endaði í 4. sæti.

Andrea Ýr Ásmundsdóttir er afrekskona og hefur verið í landsliðshópi Íslands undanfarin ár. Hún stóð sig vel á árinu, varð m.a. í 3. sæti í Íslandsmótinu í holukeppni en í því móti vann hún bæði Ragnhildi Kristinsdóttur og Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur.

Veigar Heiðarsson var valinn kylfingur GA 2023 en hann átti frábært ár, varð m.a. Íslandsmeistari 17-21 árs í Eyjum og lagði þar að velli nýkrýndan Íslandsmeistara, Loga Sigurðsson. Þá stóð hann sig vel í fleiri mótum.