Fréttir

Bjarki og Böðvar Bragi byrja vel í Svíþjóð
Bjarki Pétursson lék vel í dag.
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
þriðjudaginn 10. maí 2022 kl. 14:38

Bjarki og Böðvar Bragi byrja vel í Svíþjóð

Sex Íslendingar á Ecco-mótaröðinni í vikunni

Sex íslenskir kylfingar leika á Rewell Elisefarm Challenge á Ecco-mótaröðinni (Nordic Golf League) í vikunni en leikið er í Svíþjóð. Bjarki Pétursson, GKG og Böðvar Bragi Pálsson, GR léku vel á fyrsta hring í dag.

Bjarki var ræstur út af 10. teig. Hann lék fyrri níu holur sínar á 35 höggum eða á 1 höggi undir pari og seinni níu holur sínar á 34 höggum eða 2 höggum undir pari. Hann fékk fimm fugla og tvo skolla á hringnum og var samtals á 3 höggum undir pari Elisefarm vallarins. Bjarki er sem stendur í 4.-7. sæti en margir kylfingar eiga enn eftir að ljúka leik.

Skorkort Bjarka

Böðvar Bragi var einnig ræstur út af 10. teig. Hann lék fyrri níu holur sínar á 34 höggum eða á 2 höggum undir pari og seinni níu holur sínar á 36 höggum eða á pari. Hann fékk fimm fugla og þrjá skolla á hringnum og var samtals á 2 höggum undir pari vallarins. Böðvar er sem stendur í 8.-16. sæti.

Skorkort Böðvars Braga

Sebastian Friedrichsen frá Danmörku leiðir sem stendur á 4 höggum undir pari en hann situr einnig í fyrsta sæti stigalista mótaraðarinnar.

Andri Þór Björnsson, GR, hefur einnig lokið leik en hann kom í hús á 74 höggum eða 2 höggum yfir pari. Hann fékk fjóra fugla, fjóra skolla og einn tvöfaldan skolla á hringnum og situr sem stendur í 63.-90. sæti.

Skorkort Andra

Aron Bergsson, sem leikur fyrir Hills Golfklúbbinn í Svíþjóð, náði sér ekki á strik í dag. Hann kom í hús á 77 höggum eða 5 höggum yfir pari. Hann fékk þrjá skolla og einn tvöfaldan skolla á hringnum og situr sem stendur í 114.-124. sæti.

Skorkort Arons Bergssonar

Þeir Axel Bóasson, GK og Aron Snær Júlíusson, GKG eru meðal þeirra sem enn eiga eftir að ljúka leik. Þeir fóru út um eittleytið í dag á íslenskum tíma.