Bjarki komst áfram á 2. stigið - Sigurður og Kristófer nálægt
Einn íslenskur kylfingur af fimm sem tóku þátt í úrtökumótum fyrir DP Evrópumótaröðina í vikunni komst áfram á 2. stigið. Bjarki Pétursson lék vel og tryggði sér áfram og verður á Spáni í næsta mánuði á 2. stigi.
Sigurður Arnar Grétarsson og Kristófer Orri Þórðarson léku líka vel á mótinu en þeir og Bjarki léku í Austurríki. Sigurður var aðeins höggi frá því að komast áfram á 2. stigið. Hann endaði á -1 í mótinu. Kristófer Orri byrjaði fyrri níu holurnar á fjórða hringnum mjög illa og fékk 4 skolla og einn þrefaldan skolla og átti þá í raun mjög litla möguleika að enda nógu ofarlega til að komast áfram. En hann fór heldur betur í gang á síðustu 9 holunum og fékk sex fugla í röð og lék þær á 6 undir pari, endaði á +1 í heildina og var aðeins tvö högg frá því að komast á 2. stigið. Fín frammistaða hjá þeim tveimur sem voru að reyna sig á lokaúrtökumóti í fyrsta sinn.
Axel Bóasson endaði jafn í 47. sæti en hann og Kristófer Karl Karlsson léku á Arlandastad vellinum skammt frá Stokkhólmi í Svíþjóð. Axel endaði á +9 en skorið í mótinu var hátt og aðeins 9 kylfingar léku á undir pari í heildina. Kristófer Karl Karlsson komst ekki áfram í fjórða hring en hann endaði á +14, 76, 76 og 73 högg.
„Þetta var mjög fínt. Slátturinn mjög góður en púttin ekki að detta í mótinu. En virkilega jákvætt að vera komin í gegnum þetta stig og núna hefst undirbúnir fyrir 2 og 3 stigið,“ sagði Bjarki í stuttu spjalli við kylfing.is eftir mótið. Hann heldur nú til Spánar til æfinga og undirbúnings fyrir næsta úrtökumót á 2. stigi.