Fréttir

Birgir Leifur sýndi gamla takta í Leirdal
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 13. september 2022 kl. 14:45

Birgir Leifur sýndi gamla takta í Leirdal

Birgir Leifur Hafþórsson, sjöfaldur Íslandsmeistari í golfi sýndi að lengi lifir í gömlum glæðum síðasta laugardag. Hann lék á 62 höggum, 9 höggum undir pari í Opna Ecco minningarmóti GKG. 

Birgir fékk 8 fugla, einn örn og einn skolla á 18 holunum. Hann lék á besta skori dagsins en Sigmundur Einar Másson, Íslandsmeistari 2006, varð annar á þremur höggum undir pari, 68 höggum. 

Birgir sem er með +5 í forgjöf varð annar í punktakeppninni með 40 punkta. Bragi Þorsteinn Bragason í Golfklúbbnum Oddi sigraði með 42 punkta. 

Í kvennaflokki sem var mjög fjölmennur eða 45 konur, sigraði Ragnheiður Ragnarsdóttir, GO á 41 punkti. Nafna hennar, Ragnheiður H. Ragnarsdóttir, GKG, varð önnur með 40 punkta. Erna Steina Eysteinsdóttir, GR, var best án forgjafar á 76 höggum. 

Þátttaka var mjög góð í mótinu, alls 152 kylfingar.