Fréttir

Lee6 sigraði á Opna bandaríska mótinu
Jeongeun Lee6
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 2. júní 2019 kl. 23:17

Lee6 sigraði á Opna bandaríska mótinu

Jeongeun Lee6 fagnaði tveggja högga sigri á Opna bandaríska mótinu sem fór fram á Charleston vellinum í Suður-Karólínu dagana 30. maí - 2. júní. Þetta er fyrsti sigur Lee6 á risamóti og á sama tíma LPGA mótaröðinni.

Lee6, sem byrjaði lokadaginn tveimur höggum á eftir efstu kylfingum, lék lokahring mótsins á höggi undir pari eftir að hafa verið komin 3 högg undir par þegar þrjár holur voru eftir. Tveir skollar á þremur síðustu holunum komu þó ekki í veg fyrir hennar fyrsta sigur á LPGA mótaröðinni.

Angel Yin, So Yeon Ryu og Lexi Thompson urðu jafnar í öðru sæti á 4 höggum undir pari.

Yu Liu og Celine Boutier, sem leiddu fyrir lokahringinn, léku lokahringinn báðar á 4 höggum yfir pari og enduðu að lokum jafnar í 5. sæti í mótinu.

Sigurvegari síðasta árs, Ariya Jutanugarn, endaði í 26. sæti á 2 höggum yfir pari í heildina.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir keppti í mótinu í annað skiptið á ferlinum en líkt og í fyrra lék hún á fimm höggum yfir pari og komst ekki áfram.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.