Fréttir

Lenti í vandræðum á „Way back black“ teig
Jón H. Haraldsson.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 2. maí 2024 kl. 16:15

Lenti í vandræðum á „Way back black“ teig

Lækkaði forgjöfina á COVID-tímum

Jón H. Haraldssson er íslenskur kylfingur en hefur lengstan tíma golfferils síns leikið golf á erlendri grundu, fyrst í Panama og svo í Bandaríkjunum á tveimur stöðum. Hann kemur alltaf til Íslands á sumrin og finnst öðruvísi að spila á Íslandi sökum meiri alvöru sem er í leiknum hér og ekki síst, fleiri mót.

Jón ólst upp á Raufarhöfn en þar var lítið um golfíþróttina þegar hann var ungur og fyrstu höggin tók hann ekki fyrr en um 25 ára aldurinn á hinum fagra stað, Ásbyrgi en þar er krúttlegur sveitagolfvöllur. Hann hélt síðan suður á bóginn og golfið hófst fyrir alvöru.

„Ásbyrgi er með fallegustu stöðum Íslands svo það er kannski rómantískt að fyrstu golfhöggin hafi verið slegin þar. Ég flutti síðan suður árið 2001 og gekk fljótlega í golfklúbbinn Odd. Fyrst var ég að reka saltfiskverkun í Þorlákshöfn en eftir að ég fékk starf sem sölumaður hjá Marel gat ég meira stundað golfið. Eitt árið náði ég að vinna þriðja flokkinn í meistaramótinu, vann svo annan flokkinn árið eftir og ég man hve gaman það var að komast niður fyrir tuttugu í forgjöf. Þar með virtist ég vera kominn á endastöð í forgjöfinni og lítið gekk að lækka hana og frekar að hún hafi færst upp á við næstu árin. Svo urðu breytingar á högum fjölskyldunnar þegar Marel vildi senda mig í nýtt starf í Panama í Mið-Ameríku. Þeir voru að setja upp starfsstöð og þarna var ég í fimm ár á svokölluðum expart samningi sem virkar þannig að þú ræður þig í starf til u.þ.b. fimm ára til að koma starfsemi á koppinn og að þeim tíma loknum hefurðu val um hvort þú viljir setjast að á staðnum eða halda á vit nýrra ævintýra. Ég man að við flugum frá Íslandi 26. febrúar árið 2011 og ekta íslenskur vetur í gangi, við þurftum að gista eina nótt í New York og þar var svipað tíðarfar. Flugum svo daginn eftir til Panama og lentum í 36 gráðum, nett viðbrigði má segja. Við vorum búin að selja íbúðina, bílinn og allt hér á Íslandi og áttum eftir að finna nýtt hús í Panama og þetta var skrautlegt til að byrja með, ekki mikil enska töluð þar sem við vorum fyrst og ekki var spænskan beint að þvælast fyrir okkur svo þetta reyndi á en á endanum komumst við með þriggja ára gamalt barnið okkar inn á golfhótel og þar vorum við fyrstu vikurnar. Ég gat spilað þar og þegar við vorum svo loksins búin að koma okkur fyrir á framtíðarheimilinu gat ég farið að huga að því að koma mér í golffélagsskap. Ég kynntist flottum Dönum og við lékum fast flestar helgar. Tíðarfarið þarna er auðvitað mjög frábrugðið Íslandi en þarna er hitastigið jafnt yfir allt árið því landið er svo nálægt miðbaug. Eini munurinn er regntímabilið og þegar rignir, þá rignir! Mér fannst athyglisvert að upplifa muninn á því að spila þarna úti á móti því að spila á Íslandi en við komum alltaf heim öll sumur og þá spilaði maður auðvitað grimmt. Munurinn lá í hve golfið á Íslandi er tekið miklu alvarlegra en úti, þar komst maður aldrei í mót og það þótti ekkert tiltökumál ef boltinn var fyrir aftan tré að sparka honum í burtu og koma honum í leik, vítalaust. Mér fannst í raun bæði skemmtilegra! Mjög gaman að vera bara slakur úti og ekki að stressa sig um of á hlutunum en taka svo sportið alvarlega hér heima. Við áttum góð fimm ár úti, samningi mínum var lokið og að gerast bara venjulegur launþegi í Panama þýddi ansi mikla launalækkun og Marel bauð mér starf í Kaliforníu í Bandaríkjunum og golfið komst á næsta stig.“

Way back black teigur Bryson DeChambeau

Fjölskyldan settist að í Fresno sem er með sveitunum í kring, með um eina milljón íbúa. Fresno er á milli Los Angeles og San Francisco og hentaði staðsetningin fullkomlega fyrir Jón, bæði vinnu- og golflega séð.

„Það var gaman að skipta um umhverfi árið 2016 og setjast að í Bandaríkjunum. Fresno er fin borg en þarna er mikil grænmetis- og ávaxtaræktun allt í kring. Það er þriggja tíma keyrsla til Los Angeles og svipað í hina áttina til San Francisco og mikið af golfvöllum í næsta nágrenni. Veðurfarið þarna er auðvitað fullkomið og ég tók framförum í golfinu á þessum árum. Ég spilaði mikið völl sem heitir Dragon fly, sem atvinnukylfingurinn Bryson DeChambau ólst upp á og spilar oft í dag. Þarna eru auðvitað allir teigar í boði, bæði þeir svörtu fyrir atvinnukylfingana og hvítir fyrir okkur meðalmennina en hvítir teigar í Bandaríkjunum eru eins og gulir hjá okkur. Eitt árið var Bryson eitthvað að æfa sig og lét setja svörtu teigana enn aftar og voru þeir kallaðir „Way back black.“ Við ákváðum að prófa spila alla teigana á fjórum helgum, bláa, hvíta, svarta og svo „way back svarta.“ Skorið mitt var 83, 83, 83 og svo 104! Af þessum svörtustu teigum var lengd vallarins 8058 yardar, rúmir 7250 metrar! Sumar par fjögur holurnar voru þannig að maður þurfti að ná 250 metrum á flugi til að komast yfir vatn og nokkuð ljóst að maður væri ennþá að reyna komast yfir ef maður gat ekki bara tekið víti. Lengsta par fimm holan var 700 yardar (630m) og ein par þrjú holan var 290 yardar (261m)! Ég kíkti sem sagt í póstnúmer þennan dag og það var gaman að mæla sig við svona högglangan kylfing eins og Bryson en ég mun ekki sækjast neitt sérstaklega eftir því að spila á svona teigum í framtíðinni. 

Við áttum góð fimm ár í Fresno en svo bauðst mér að taka við sem framkvæmdastjóri hjá dönsku fyrirtæki og þá fluttum við okkur til Georgia-fylkis og settumst að í æðislegum tæplega 40 þúsund manna golfbæ sem heitir Peachtree City . Bærinn er í 30 mín keyrslu frá Atlanta og er þekktur fyrir golf og golfbílamenningu en hérna eru yfir 400 km af golfbílastígum um alla borg,“ segir Jón.

COVID lækkun forgjafar

Jón og fjölskylda voru bara rétt búin að taka upp úr töskunum á nýjum stað þegar COVID skall á. Jón þurfti eiginlega ekki vinna nema einn klukkutíma á dag og því var ekkert betra í stöðunni en taka golfíþróttina fastari tökum.

„Ég var með rúmlega tólf í forgjöf þegar við fluttum og ég skráði mig strax í golfklúbb. Aðild gaf færi á sex golfvöllum og sá sem var styðst frá heimilinu mínu var í um tveggja mínútna keyrslu á golfbílnum, hér eiga allir i bænum golfbíl. Ég komst strax í góðan félagsskap og þegar COVID-ið skall á gat ég farið að æfa golfið meira og er með um átta í forgjöf í dag. Við getum spilað hér allan ársins hring og þessi u.þ.b. 60 manna golfhópur sem ég er í spilar nánast allar helgar ársins. Við spilum á laugardegi eða sunnudegi og tuttugu bestu mótin telja til hins svokallaða FATex-champion sem er krýndur í október, FATex auðvitað stæling á FEDex cup. Mér finnst gott að þarna spilum við alltaf höggleik með forgjöf, það þýðir að þú þarft að vanda þig meira en í punktaleik er svo auðvelt að taka boltann bara upp og X-a holuna. Þú æfist meira með þessu fyrirkomulagi en bestu kylfingarnir í hópnum eru með + forgjöf og þeir lélegustu byrjendur en við gefum bara 30 sem hámarksforgjöf. Þetta er nú það yndislega við þessa blessuðu golfíþrótt, allir geta keppt sín á milli.

Við stefnum á að koma til Íslands í kringum 20. júní, náum þá lengsta degi ársins og ég er ákveðinn í að spila eins mikið og ég get. Ég á fullt af vinum og félögum og spila með þeim á þeirra völlum, ég hlakka mikið til golfsumarsins á Íslandi,“ Jón að lokum.

Jón með Herði syni sínum í miðnæturgolfi á Leirdalsvelli.

Jón á par þrjú holu á Dragon fly, lengsta þannig holan er „ekki nema“ rúmir 260 metrar!

Sólin skín venjulega...

...í Los Angeles.

Þá má vart sjá hvor er með fegurri aftursveiflu!

Jón búinn að tee-a upp í Panama.