Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Viðtal

Skylda allra kylfinga að halda leikhraða
Fimmtudagur 25. maí 2023 kl. 08:49

Skylda allra kylfinga að halda leikhraða

Það er óhætt að segja að fréttabréf Golfklúbbs Reykjavíkur til félagsmanna hafi vakið athygli. Kylfingur flutti fréttir í gær af áherslum um leikhraða þar karlar eru beðnir um að tengja ekki ímynd sína við rauða kvennateiga. 

Stærsti golfklúbbur landsins er með þessu að hefja herferð gegn hvimleiðu vandamáli á golfvöllum klúbbsins, hægum leik. Gísli Guðni Hall, formaður GR, hafði þetta að segja aðspurður um þessa áherslu:

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

„Það fellur undir skyldur kylfinga samkvæmt golfreglunum að halda leikhraða, og allir kylfingar vilja jú fylgja golfreglunum.  Of hægur leikur er ákveðið vandamál, ekki bara í GR, heldur víða um heim þar sem vellir eru ásetnir.  Það er okkar forráðamanna klúbba og golfíþróttarinnar að bregðast við, og eins og fram kemur í fréttabréfinu okkar, þá er einfaldasta leiðin að fá kylfinga til að spila af teigum sem hæfa þeirri getu.  Í fréttabréfinu höfum við orð á því að karlmenn eigi til að tengja ímynd sína við lit teiga, sem á nú að heyra sögunni til.  Það er einfaldlega þannig að kylfingar fá mest út úr golfinu ef þeir spila við teiga sem þeir ráða vel við.  Skorið verður betra og hlutfall löngu högganna og þeirra styttri verður nærri því sem golfvöllurinn er hannaður fyrir.  Að sjálfsögðu slær háforgjafarkylfingurinn fleiri högg en lágforgjafarkylfingurinn, en munurinn minnkar ef menn spila á réttum teigum, ekki ósvipað og forgjöfin hjálpar kylfingum af mismunandi getustigi að keppa á jafnréttisgrundvelli með forgjöf.

En fyrst ég er spurður, þá má ég til með að koma á framfæri nokkrum einföldum ráðum sem allir ættu að temja sér til að flýta leik, þetta er ekki tæmandi listi en ætti að hjálpa verulega:

1. Leikið af teigum við hæfi samkvæmt framansögðu.

2. Verið tilbúin að slá þegar röð kemur að ykkur á teig. Golfhanskinn á að vera kominn á og þetta er ekki tíminn til að fækka fötum eða skrá skor.

3. Spilið „ready golf“.  Ef þið eruð tilbúin og ekki fyrir öðrum, notið tímann til að slá eða pútta, og rétt eins og á teig, verið tilbúin þegar röðin kemur að ykkur.

4. Ef þið lendið í sandglompu, skiljið þá golfkerruna eftir á hagkvæmasta stað, þannig að þið þurfið ekki að sækja hana langa leið á eftir.  Takið svo hrífuna með ykkur að bolta, en ekki leita hana upp eftir höggið. Það flýtir glettilega mikið að hafa hrífuna tilbúna til taks strax eftir glompuhöggið og svæðið sem þarf að raka verður minna.

5. Þegar þið komið að flöt, skiljið þá við golfkerruna á hagkvæmasta stað, þannig að þið verðið fljót að yfirgefa flötina og ganga beint að næsta teig.

6. Það þarf ekki að taka pinnann úr þegar púttað er.  Við lærðum á Covid tímanum að það flýtir leik að hafa pinnann í.

7. Það er vinsælt að taka myndir nú til dags.  Það er ekki ástæða til að amast við stöku myndum, en notið réttu augnablikin til þess, aldrei láta aðra bíða út af myndatöku.

8. Fylgist með hollinu á undan.  Ef það stingur ykkur af umfram heila braut, þá er það áminning um að hraða þurfi leik, allavega ef völlur er ásetinn.

9. Spilið punktakeppni en ekki höggleik.  Ef ekki er lengur möguleiki á punkti á holu, þá eru höggin orðin fleiri en völlurinn og forgjöf gera ráð fyrir.  Það eina í stöðunni er að taka boltann upp og reyna að gera betur á næstu holu.

10. Það er misjafnt hverja áherslu kylfingar leggja á leikhraða.  Sumir pirrast og kólna niður ef leikur gengur hægt.  Öðrum finnst það bara fínt, skemmtilegt og hafa allan heimsins tíma.  Þið sem fallið í seinni hópinn, munið að það er brot á golfreglunum að halda ekki leikhraða.  Þessa reglu, og þar með tíma annarra kylfinga og tímaáætlanir, ber að virða.  Þið sem fallið í fyrri hópinn, andið eðlilega og sparið ókvæðisorðin, það gerir ekkert nema trufla spilamennskuna.  Bestur árangur fyrir alla næst með jákvæðni og tillitsemi.

Þetta eru allt einföld atriði og er ætlað að draga úr stressi og hugarangri, en ekki öfugt.  Ef kylfingar temja sér þetta, eins og reyndar meginþorri kylfinga hefur gert, þá geta þeir haldið eðlilegum leikhraða.  Því fylgir aukin ánægja og áhrifin á skorið verða góð“ – segir formaður GR.