Viðtal

Garðavöllur kemur vel undan vetri
Einar Gestur og Guðni Steinar glaðbeittir á Garðavelli.
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
miðvikudaginn 4. maí 2022 kl. 13:10

Garðavöllur kemur vel undan vetri

„Vorið hefur aldrei kom­ið eins skyndilega eins og núna eft­ir páskana og er alveg ólíkt frá því í fyrra. Þá byrjaði að grænka en síð­an kom kuldatímabil og svo gerð­ist ekki neitt fyrr en í júní. Flatirn­ar eru mjög góðar núna miðað við árstíma svo þetta lítur allt mjög vel út. Svo er bara að vona að það verði gott veður í sumar en ekki endalaus bleyta eins og síðasta sumar,“ sögðu þeir Einar Gestur Jón­asson, vallarstjóri og Guðni Stein­ar Helgason starfsmaður/vélamað­ur á Garðavelli á Akranesi í viðtali við Skessuhorn.

Alltaf að betrumbæta 

Einar og Guðni segja að völlurinn komi vel undan vetri og miðað við umhleyp­ingasaman vetur þá er hvergi kal að sjá í honum. Annars skipti mestu máli að að hafa teigana og flatirnar í góðu lagi.  Einar er menntaður golfvalla­fræðingur eftir tveggja ára nám frá Elmwood College í Skotlandi sem er skóli staðsettur rétt hjá hinum fræga golfvelli St. Andrews. Hann hefur unnið meira og minna við þetta í um 20 ár. Einar hóf störf í febrúar á þessu ári á Garðavelli en Guðni hefur starfað þar síðustu fjögur ár. Þeir eru báðir í heils­ árs starfi og segja að yfirleitt byrji árið þannig að þá sé viðhald á vél­um og þrif á þeim og síðan hefjist undirbúningur fyrir næsta sumar. Upp úr vorinu sé verið að undirbúa völlinn fyrir opnun og síðan komi sumarið og rútínan. „Þá er verið að slá völlinn alla daga og halda hon­um í spilhæfu ástandi. Svo þegar fer að hausta í byrjun september er völlurinn gataður, sandað­ ur og borinn á hann áburður. Þá er öllum flötum lokað og ef það eru einhverjar framkvæmdir eins og að laga teiga eða gera glompur þá er það tíminn til þess. Svo erum við alltaf að betrumbæta ef við sjá­ um ástæðu til en þó eru það aldrei neinar stórvægilegar breytingar sem við gerum.“ 

Guðni segir varðandi vélakost golfklúbbsins að þeir séu með stór­an og dýrmætan flota af vélum og hafi náð á síðustu árum að eignast enn fleiri tól og tæki til að verða sjálfbærir í rekstri og til að gera völlinn enn betri. Guðni sér um allar viðgerðir á vélum og segir það breytingu frá því sem áður var þegar verktaki sá um viðgerðirnar. Nú geti hann gengið strax í verkið ef vél stoppar og þá þarf hún ekki að standa í einhvern tíma eins og stundum var raunin áður. 

Sami kjarni og undanfarin ár 

Það er nóg að gera hjá vallarstarfsmönnum yfir golftíðina sem nær fram á haust.

„Sláttumennirnir eru yfirleitt mættir um klukkan sjö á morgnana til klukk­an þrjú á daginn en ef það er mót þá byrja þeir um fjögur fimm svo þeir nái að gera allt áður en mótið hefst. Við sláum flatirnar alla daga yfir sumarið og með sláttinn, þá er hirt upp af teigum og flötum en hitt fær að liggja. Þetta er slegið svo ört að grasið verður að engu.“ 

Annars segja þeir félagar að þeirra starf snúist aðallega um þjón­ustu við kylfingana, ef völlurinn er góður og allar aðstæður eins og þær eigi að vera þá séu kylfingarnir sátt­ir. 

En að lokum, hvernig er Garðavöllur í samræmi við aðra velli á Íslandi? 

Einar segir að Garðavöll­ ur sé einn af bestu völlum landsins, á topp fimm að hans mati, og það séu margir sem eru einnig á þeirri skoðun. Hann þykir frekar flatur en margir eru hrifnir af því vegna þess að hann er þá svo léttur undir fót­inn. Þá sé ekki slæmt að geta horft á Akrafjallið í sinni fegurstu mynd við spilamennskuna.