Viðtal

Flóð, COVID, skjálfti og eldgos í forgjöf
Helgi Dan búinn að setja sólgleraugun upp á Húsatóftavelli
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 3. júlí 2023 kl. 13:00

Flóð, COVID, skjálfti og eldgos í forgjöf

Helgi Dan stýrir málum hjá Golfklúbbi Grindavíkur

Skagamaðurinn Helgi Dan Steinsson hefur stýrt Golfklúbbi Grindavíkur (GG) síðan í ársbyrjun 2020 en fróðir menn muna að það ár hófst hið illræmda COVID-tímabil. Stuttu áður en það skall á, reið mikið flóð yfir bakkana svokölluðu en þar eru fimm af átján holum Húsatóftavallar. Til að bæta enn meira gráu ofan í svart, hóf jörð að skjálfa í Grindavík um þetta leyti sem endaði svo í frægu eldgosi í Fagradalsfjalli. Ekki beint hægt að flokka þetta undir „Ágætis byrjun“ en fall er fararheill segir einhvers staðar. GG hefur vaxið og dafnað allar götur síðan þá, mikil aukning hefur verið í golfklúbbnum og sérstaklega hefur orðið mikil aukning á kvenkylfingum. Helgi gegnir auk þess stöðu vallastjóra á Húsatóftavelli og var úti á velli þegar blaðamaður Kylfings hafði samband við hann.

Helgi á von á fjölmenni á vellinum næstu daga. „GG hefur venjulega reynt að hafa sitt meistaramót tiltölulega seint í júlímánuði til að gefa þeim kylfingum sem ekki vilja keppa í meistaramóti síns klúbbs, tækifæri á að geta spilað en vellirnir loka eðlilega þegar meistaramótin eru í gangi hjá klúbbunum. Þetta hefur gefið góða raun, völlurinn er mjög vel sóttur þessa daga og þá koma auðvitað góðar aukatekjur inn. Eftir þungan vetur sem beit í alla, er völlurinn okkar virkilega að koma til núna og nálgast sitt besta form, við erum mjög stolt af vellinum og hlökkum til að bjóða kylfinga velkomna.“

Mótin í Grindavík

Helgi fór yfir hvernig Grindvíkingar haga sínu mótahaldi. „Við erum með hefðbundna stigamótaröð, tólf mót spiluð yfir sumarið og þau átta bestu telja. Þessi mót eru alltaf mjög vel sótt hjá meðlimum GG, við erum með góð verðlaun í boði og alltaf mikil spenna hver hreppir nafnbótina Stigameistari GG. Í fyrra var það körfuknattleiksmaðurinn fyrrverandi, Páll Axel Vilbergsson sem var hlutskarpastur og eins og sakir standa er það einn af stofnmeðlimum GG, Bjarni Andrésson sem leiðir. Við erum líka búnir að spila fyrstu umferð í Tóftabóndanum svokallaða en það er í raun bikarkeppni GG. Mjög skemmtilegt mót þar sem dregið er um hvaða kylfingar mætast og maður dregst á móti kylfingi sem maður annars hefði hugsanlega aldrei spilað með. Svona kynnist fólk og úr verður mikil skemmtun en þetta er holukeppni og auðvitað jafnast leikurinn út vegna forgjafarinnar. Ég er forgjafalægsti kylfingur GG og ef ég dregst á móti einhverjum með tuttugu í forgjöf t.d., er eins gott að ég spili vel því viðkomandi fær högg í forgjöf á hverri holu og rúmlega það. Mjög skemmtilegt en fyrir utan þessi árlegu innanfélagsmót okkar erum við alltaf með eitt og eitt opið mót, kvennamót eins og Bláa lóns mótið, svona gæti ég lengi haldið áfram. Hjá okkur í GG er svo sjálft meistaramótið rjóminn, við slógum met í fyrra þegar 90 þátttakendur voru skráðir til leiks og stefnan er klárlega sett á þriggja stafa tölu í ár,“ segir Helgi.

Golfarinn Helgi

Helgi er með -2,8 í forgjöf í dag, keppti um tíma á meðal þeirra bestu og átti vallarmetið í Vestmannaeyjum um tíma, 63 högg. Hvernig er staðan á golfi Helga í dag? „Það er aldrei að vita nema ég mæti í Íslandsmótið í ár, ég tók víst veðmál við frænda minn af Akranesi þess efnis en þá þarf ég nú að fara byrja spila og æfa, það gefst ekki mikill tími í það samhliða því að reka golfklúbb og vera vallarstjóri. Dagarnir geta verið langir og eðlilega gefst þá minni tími til æfinga. Raunhæft markmið yrði að enda ekki í síðasta sæti en sjáum hvað setur, það er langt síðan ég tók síðast þátt, það yrði gaman að geta verið með,“ sagði Helgi að lokum.