Viðtal

„Geri kröfur um fullkomnun“ segir Guðmundur Ágúst
Sunnudagur 12. febrúar 2023 kl. 15:39

„Geri kröfur um fullkomnun“ segir Guðmundur Ágúst

„Það var náttúrlega geggjað að setja niður ás. Þetta er í annað skiptið sem ég fer holu í höggi í keppni, en ég hef farið fimm sinnum alls,“ sagði Guðmundur Ágúst Kristjánsson atvinnukylfingur úr GKG í viðtali við Kylfing eftir að hafa lokið leik í Singapore Classic jafn í 49. sæti og tryggt sér um 1.200.000 kr. í verðlaunafé.

„Það er frábært að komast í gegnum niðurskurðinn og fá svo alvöru pening í verðlaunafé. Töluvert meira en fæst á Challenge mótaröðinni. Ég fæ góðan stuðning í gegnum Forskot, er ekki með fjölskyldu og bý heima hjá mömmu og pabba. Fæ mikinn stuðning sem ég er gríðarlega þakklátur fyrir. Þannig get ég alfarið verið með hugann við golfið. Ég er í fyrsta sinn með atvinnukaddý með mér sem heitir Fraser O´Neill. Hann ætlar að vera með mér í nokkur mót. Það kostar um  250 þúsund krónur á mót og svo er samkomulag um það á mótaröðinni að ef mótin eru utan Evrópu að þá greiðir leikmaðurinn helming af kostnaði við flug fyrir kaddýinn. Við höfum náð vel saman,“ sagði Guðmundur Ágúst og hélt áfram að segja frá lífinu á DP mótaröðinni.

„Á morgun flýg ég yfir til Tælands en næsta mót er Thailand Classic sem leikið er á Amata Springs. Næsta stopp þar á eftir er Indland, svo kem ég heim í viku áður en ég held til Kenýa. Svo þetta eru alvöru ferðalög. En þetta er bara svo geggjað gaman hérna. Munurinn að vera á DP World Tour samanborið við Challenge túrinn er mikill. Þetta er bara allt annar heimur. Hér er í fyrsta lagi spilað á golfvöllum sem eru í alfaraleið. Ég get valið um 15 flug frá Singapore til Bangkok. Svo það er auðvelt að komast á milli staða, meðan mótin á Challenge eru á minni völlum sem oft eru aðeins úr alfaraleið. Hér eru svo betri stofur fyrir leikmenn á öllum mótum, boðið uppá góðan mat. Svo er dekrað við mann með þjónustubílum, þannig ef ég þarf að fara eitthvað, þá er mér bara skutlað þangað sem ég vil fara. Þannig er þetta mun þægilegra líf. Svo er það stemmningin. Hér er fullt af áhorfendum og bara miklu betra „vibe“. Svo er rosalega gott sem atvinnukylfingur að geta speglað þig á mótið þeim bestu. Hér eru leikmenn í topp 50 í heiminum að keppa, kylfingar sem maður sá áður bara í sjónvarpinu. Ég spilaði til dæmis í þessu móti með Ryan Fox, sem var valinn leikmaður ársins af kylfingunum á mótaröðinni í fyrra.“

„Ég sé að ég á fullt erindi hér á DP mótaröðina. Það tekur bara nokkur mót að aðlagast og læra inná þetta. Svo þarf bara að spila vel. Í þessu móti var ég til dæmis ekki að pútta vel, en ég var að slá frábærlega. Var bara „solid“ af teig. Langur og beinn. Var svo alveg „deadly“ af 90-120 metrum og kom mér í mörg frábær færi, en nýtti þau ekki vel. Til dæmis núna á lokahringnum var ég með þrjú þrípútt og samt á sex undir pari. Ég gerði nokkur rasshausamistök, var óheppin með eina bogey-ið á hringnum. Átti frábært teighögg sem skoppaði á slæman stað. Fínt högg þaðan en þrípúttaði svo. Bara svona „schoolboy stuff“ sem ég var að klikka á því þetta var bara annað mótið eftir smá pásu. Ég er ekki að vera neikvæður en ég þarf bara að gera kröfur til mín um fullkomnun. Í Qschoool var ég að pútta frábærlega en ekki að slá eins vel og núna. En það þarf jafnframt að hafa í huga að það er mikill munur á púttflötum í Evrópu, Bandaríkjunum og svo í Asíu. Það er svona meira illgresi í hitabeltisflötunum og aðeins erfiðara að lesa hvernig grasið í þeim liggur. “ 

Frábær árangur hjá Guðmundi Ágústi. Næsta mót Thailand Classic hefst þann 16.febrúar og íslenskir kylfingar geta fylgst með okkar manni á mótaröð þeirra bestu í Evrópu hér á kylfingur.is

Hér má sjá Guðmund Ágúst ásamt Fraser og Greg T. sem sendi okkur þessar flottu myndir frá Singapore.