Viðtal

„Fatnaður hannaður af konum með þarfir kvenna í huga“
Katrín í litlu versluninni. Bláa peysan og toppurinn eru frá Golftini.
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
föstudaginn 8. júlí 2022 kl. 09:44

„Fatnaður hannaður af konum með þarfir kvenna í huga“

Golfa er vefverslun með golffatnað fyrir konur. Hugmyndin kviknaði síðastliðið haust en verslunin hóf göngu sína í febrúar. Katrín Garðarsdóttir er eigandi og verslunarstjóri golfa.is.

Katrín Garðarsdóttir hóf að selja golffatnað fyrir konur í vefverslun sinni, golfa.is, síðasta haust. Katrín er ekki ókunnug verslun og þjónustu en hún hefur m.a. starfað í kvenfataverslun áður. Þá er hún ástríðukylfingur en hún hellti sér af fullum krafti í golfið fyrir 5-6 árum síðan. Raunar stundar fjölskyldan golf, alveg eins og hún leggur sig, þó sumir spili meira en aðrir en sonur Katrínar, Jóhann Frank Halldórsson, er í piltalandsliði Íslands, sem leikur á Evrópumóti um þessar mundir.

„Þessi hugmynd kviknaði eftir golfhring síðasta haust en við hjónin vorum í golfferð og vorum að slaka á eftir hringinn þegar ég er að ræða einsleitnina á markaðnum á Íslandi í golffatnaði fyrir konur. Mér fannst vera gat á markaðnum og í kjölfarið fór ég að hugsa og vafra um á netinu en þá hafði ég séð eitt af þeim merkjum, sem ég er að selja á golfa.is, í verslun á erlendum golfvelli.“

Margeir golfferð
Margeir golfferð

Katrín ákvað að senda fyrirspurn á framleiðanda vörunnar og fékk svar nokkuð fljótt. Tölvupóstar gengu á milli og þegar Katrín hafði kynnt sig og sínar hugmyndir komst hún í samband við dreifingaraðila og stakk sér í kjölfarið í djúpu laugina. En hvernig hefur reksturinn gengið?

„Það hefur gengið virkilega vel. Ég hef frá upphafi fengið góðar viðtökur en ég opnaði vefverslunina í febrúar sl. Þegar ég opnaði hafði ég bætt við öðru merki og ekki leið á löngu þar til þriðja merkið bættist við vörulínuna.“

Katrín í annars vegar bleikum buxum frá Golftini og hvítum jakka og topp frá Tail og hins vegar klædd í Belyn Key frá toppi til táar.

Katrín segir að framleiðendur og dreifingaraðilar merkjanna allra hafi sýnt mikinn samstarfsvilja og haft einlægan áhuga á Íslandi og að selja vörurnar hér á landi. Nú þegar tæpt ár er síðan Katrín hóf reksturinn segir hún að samskiptin séu orðin persónuleg og samstarfið sé einkar gott við framleiðendur og dreifingaraðila.

„Það kom mér svolítið á óvart hvað allir voru spenntir fyrir því að selja hér á þessum litla markaði. Við fundum strax mikinn samhljóm. Mér fannst vanta golffatnað fyrir konur sem hannaður er með þeirra þarfir í huga og jafnvel af konum. Meirihlutinn af þeim sem ég er að versla við eru að hanna og framleiða fyrir konur og á þeim forsendum að þeim fannst vanta eitthvað inn á markaðinn rétt eins og mér sjálfri fannst vanta eitthvað slíkt hér á Íslandi. Það er alltaf gaman þegar þetta helst svona í hendur.“

Mæðgurnar, Katrín og Andrea Rut, skarta Belyn Key og Tail á Hof Trages golfvellinum nærri Frankfurt. Katrín spókar sig á golfvellinum í buxum frá Tail og peysu og topp frá Golftini.

Í vefverslun golfa.is býður Katrín upp á mikla breidd í fatnaði, allt frá toppum, bolum, buxum og peysum til kjóla og pilsa, vesta og jakka. Þá hefur hún einnig til sölu fylgihluti á borð við veski og töskur, húfur og sokka, sem og leðurbelti framleidd af fjölskyldufyrirtæki í Kanada. Fatnaðurinn er einkar vandaður en merkin eru flest amerísk og bresk þó eitthvað sé framleitt á Ítalíu.

Katrín segist reyna að stilla verðum í hóf sem hún frekast getur.

„Ég er ekki með mikla yfirbyggingu. Verslunin er fyrst og fremst vefverslun og ég er hvorki með leigt eða keypt húsnæði undir starfsemina, sem ætti að skila sér í lægri verðum. Ég er hins vegar með flotta og góða aðstöðu þar sem ég er með vörurnar og upplifunin að ganga inn í það húsnæði er svolítið eins og að ganga inn í litla golffataverslun. Þar hef ég verið að taka á móti þeim sem að einhverjum sökum treysta sér ekki til að nota vefverslunina. Ég vonast til þess að geta þegar fram líða stundir boðið upp á ákveðinn afgreiðslutíma í litlu versluninni fyrir þá sem þangað vilja sækja.“

Katrín í litlu versluninni. Bláa peysan og toppurinn eru frá Golftini.

Katrín segir að þau fjögur merki sem hægt er að nálgast á golfa.is séu öll frekar ólík og þá segir hún að margar konur kaupi föt á golfa.is án þess að hafa nokkurn tímann leikið golf.

„Konur hafa verið að nota fatnaðinn í sumarfríum og einhverjar hafa keypt föt í fjallgönguna o.fl. en vörurnar líta ekkert endilega út fyrir að henta eingöngu í golf þó þær séu hannaðar með golf í huga. Það er líka gaman að segja frá því að ég hef tekið á móti minni hópum, sem hafa komið og valið sér eitthvað samstætt fyrir einhver tilefni. Ég horfi til þess að veita góða og persónulega þjónustu.“

Rafrænt gjafakort golfa.is er fullkomin leið til að dekra við kylfinginn í lífi þínu - gjöf fyrir afmæli eða önnur tækifæri. Hægt er að nálgast gjafakortin í vefversluninni. Þú velur þá upphæð sem þér hentar.

Merkin sem í boði eru á golfa.is; Tail, Golftini og Belyn Key eru merki sem leggja mikið upp úr gæðum, sniðum og efnisvali, segir Katrín.

„Fatnaður frá þessum merkjum er mikið til hannaður af konum sem eru með þarfir sínar og annarra kvenna í huga. Þá bjóðum við gæðapeysur úr ítalskri merino ull frá Birdie London. Sennilega er eitt mesta úrval af golffatnaði fyrir konur að finna á golfa.is. Allar vörur eru sendar án endurgjalds á næsta pósthús eða í póstbox. Ég vil hvetja konur á öllum aldri til að kynna sér úrvalið á golfa.is og minni á að það er alltaf hægt að senda tölvupóst og fá að koma og líta inn í litlu verslunina. Þar ættu allar konur að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.“