Stefán Óli er efnilegur söngvari og lunkinn kylfingur
Stefán Óli hefur getið sér gott orð sem söngvari undanfarið og mun hann syngja lagið, Ljósið, í fyrri undankeppni Söngvakeppni sjónvarpsins annað kvöld. Lagið er eftir þá Andra Þór Jónsson og Birgi Stein Stefánsson og textinn eftir Stefán Hilmarsson.
Stefán Óli segist hafa byrjað að syngja fyrir framan fólk að einhverri alvöru árið 2019 þó hann hafi nú sungið lengur fyrir sjálfan sig.
Stefán fékk símtal frá lagahöfundunum, Andra Þór Jónssyni og Birgi Steini Stefánssyni. Hann sagði þá hafa verið með lag fyrir sig og að þeir hafi spurt hvort hann hefði áhuga á að taka þátt. „Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um þó ég hafi verið hræddur við að stíga skrefið. Ég er þeirrar skoðunar að maður eigi aldrei að festa sig í þægindarammanum sínum ef mann langar að láta drauma sína rætast.“
„Ég er rétt að byrja í tónlist en draumur minn er að ná að afreka eitthvað sérstakt á því sviði. Vonandi eru fleiri ævintýri framundan“, segir þessi frábæri söngvari sem einnig er öflugur kylfingur og var m.a. klúbbmeistari Golfklúbbs Ísafjarðar árið 2017.
Stefán Óli er kylfingur dagsins.
Nafn: Stefán Óli Magnússon
Aldur: 27 ára
Klúbbur: GR
Forgjöf: 1,3
Hvert er besta skorið þitt?
Óskráður æfingahringur: 65 högg.
Skráður æfingahringur: 67 högg.
Skráður keppnishringur: 70 högg
Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvernig gerðist það?
Ég byrjaði 13 ára á Ísafirði. Fyrstu kylfurnar mínar hétu Tommy Armour sem er nú ekki mikið notað í dag held ég. Afi minn byrjaði sjálfur seint í golfi og dró mig með. Hann var mikið fyrir að kynna mér fyrir ýmsu sem hann hafði gaman af. Ég féll nú ekki fyrir öllu en þegar hann náði mér í golfið var ekki snúið aftur.
Hver er helstu afrek þín í golfi?
Ég hef unnið flest allt sem hægt er að vinna á Ísafirði og var m.a. valinn kylfingur ársins þar árið 2017. Ég held mikið upp á þann titil enda eitt mesta afrek í íþróttum sem ég hef náð. Ég á alltaf eftir að sækja einn bikar heim á Ísafjörð og það mun ég gera einn daginn. Ég veit ekki hvað Ísfirðingum mun finnast um að sá verði geymdur í borginni í eitt ár eða svo en látum það liggja milli hluta.
Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í á golfvellinum?
Eitt sinn fór ég í gegnum mót á Mótaröð GSÍ, sem þá hét Eimskipsmótaröðin, og ég sjankaði boltann í hverju einasta höggi fyrir utan drævin. Það kom m.a.s. reyndar fyrir að drævin fóru út fyrir vallarmörk. Ég hef komist yfir þennan hring en mér finnst best að reyna að hafa gaman af svona og hlæja bara að því.
Hefurðu farið holu í höggi og þá hvar?
Nei ég hef ekki farið holu í höggi en ég hef slegið út af vellinum heima á Ísafirði á 6. braut sem er par 3 og slegið svo næsta högg af teig ofan í holu. Það telst því miður ekki sem hola í höggi. Annars hef ég ansi oft verið nálægt því og boltinn oftar en einu sinni kíkt ofan í hjá mér. Vonandi slæ ég draumahöggið einn daginn.
Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur spilað með?
Frægasti kylfingurinn sem ég hef spilað með er líklega frægari tónlistarmaður en kylfingur. Ég átti mjög svo góðan hring með Stefáni Hilmarssyni. Það var mjög skemmtilegt enda er hann fyrir mér mikil fyrirmynd í tónlistinni.
Hver er besti kylfingurinn?
Hérna heima á Íslandi hef ég haldið mikið upp á Axel Bóasson þó ég þekki hann ekki neitt persónulega. Mér finnst flott hvað hann hefur mikla trú á sér og hvernig hann ber sig almennt.
Uppáhalds kylfingur (á Íslandi og erlendis:)?
Uppáhalds kylfingurinn á Íslandi er Axel Bóasson. Ég hef alltaf verið rosalega mikill aðdáandi Tiger Woods en ég held líka mikið upp á Jordan Spieth. Í dag er erfitt að velja á milli þeirra.
Þrír uppáhaldsgolfvellir?
Þeir þrír sem ég ég hef spilað á og eru í mestu uppáhaldi eru Hvaleyrarvöllur hjá GK, Grafarholtsvöllur hjá GR og Tungudalsvöllur á Ísafirði sem er og verður alltaf uppáhaldsvöllurinn minn.
Þeir þrír vellir sem ég myndi vilja spila erlendis eru St. Andrews - Old Course, Pebble Beach og Augusta National þó ég viti að ég hafi ekki leyfi til þess en maður á aldrei að segja aldrei.
Þrjár uppáhalds golfbrautir á Íslandi?
4. braut í Grafarholti.
Þetta er Par 5 fuglahola og stundum er gott að slaka á og taka léttan fugl snemma á hringnum.
12. braut á Korpunni, Sjórinn-Áin.
Gullfalleg Par 4 hola sem getur verið hrikaleg á hvítum teigum en á sama tíma virkilega skemmtileg.
11. braut á Hvaleyrinni.
Par 4. Þegar það er logn er ekki til betri staður að vera á.
Erfiðasta golfbrautin?
Urriðavellur í miklu roki eins og hann leggur sig. Ég spilaði í tveimur mótum þar á Eimskipsmótaröðinni. Þetta er allt annar völlur í 15-20 metrum á sekúndu. Ég hef ekki lært á þannig vind ennþá.
Erfiðasta höggið?
Erfiðasta höggið er löng Par 3 hola, ca. 200 metrar í góðum mótvindi. Við þær aðstæður finnst mér golf ekki skemmtilegt. Annars getur verið gaman að taka 2 járnið og vippa honum inná þegar það tekst.
Hvað er í pokanum?
Dræver:
TaylorMade Sim Max 2020 - uppáhalds kylfan mín
Brautartré:
TaylorMade M4 3 tré. Eina kylfan sem er ekki mæld á mig. Hún er hrikalega góð ef dræverinn fer í snemmbúið haustfrí. Á góðum degi slæ ég svipaðar lengdir með henni.
Járn:
TaylorMade P760.
TaylorMade P790. Dræving 2 járn.
Fleygjárn:
TaylorMade 60 gráður.
Titleist 54 og 50 gráður.
Pútter:
Ping pútter. Ég er duglegur að skipta um pútter enda er hann það sem gerði það að verkum að golfdraumurinn varð einungis draumur.
Hanski:
Ég nota oftast Titleist hanska en ég prófa allt sem er úr þunnu leðri.
Skór:
Ég nota Ecco skó. Ég var mikið í Nike uppá lúkkið en ég tek þægindin fram yfir í dag og mæli með því.
Bolti:
Titleist Pro V1. Ég nota alltaf góða bolta. Ef þú vilt fá stöðuleika í spilamennskuna er ekki gott að vera með mismunandi bolta. Stöðuleiki skiptir öllu.
Eitthvað annað sem er alltaf í pokanum?
Mörg handklæði. Ég nota þau mikið. Í mikilli rigningu vef ég t.d. handklæði utan um skaftið þegar ég er að bíða eftir að slá svo það blotni síður.