Kylfingur dagsins: Hanskaböðull sem heldur upp á Jimenez
Fjölmiðlamaðurinn Ríkharð Óskar Guðnason er einn af fjölmörgum áhugasömum kylfingum þessa lands en hann byrjaði 6 ára í golfi. Uppáhaldskylfingurinn hans er Spánverjinn Miguel Angel Jimenez en okkar maður hefur lent í verulega vandræðalegu atviki á golfvellinum sem hann segir okkur frá.
Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvernig gerðist það?
Það gerðist í Öndverðarnesi þegar ég var 6 ára með bróður afa míns. Hann kveikti áhugann. Ég hætti reyndar frá 10 ára aldri og byrjaði aftur 18 ára. Það væntanlega er ástæðan fyrir því að ég er ekki á túrnum.
Helstu afrek í golfinu?
Sætasti titillinn er sigur í Meistaramóti í 1.flokki í Mosó árið 2018. Annars er ég titlaóður í þessu sporti.
Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í á golfvellinum?
Datt ofan í vatn í Búlgaríu þegar ég var að pissa í mig, var farið að rökkva og ég sá ekki brekkuna. Rúllaði út í vatnið og á kaf. Félagarnir lugu að mér að það væri krókudílar í vatninu, held ég hafi misst meira en þvag í vatninu af hræðslu.
Hefurðu farið holu í höggi?
Nei en er enn að leita að því. Ótrúlegustu félagar mínir hafa reyndar farið holu í höggi. Góða við það er að þú þarft ekki að vera með 5 eða undir í forgjöf til að fara holu í höggi. Einu sinni verið vitni af því. Auðunn Blöndal stiffaði einn ofan í af 130 metrunum í Búlgaríu. Sturlað högg.
Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?
Myndi segja Laddi þó Auddi Blö sé alveg sjúklega frægur og flottur líka.
Hver eru markmið sumarsins þegar golftíðin hefst aftur?
Ætla mér að mæta á Íslandsmótið í höggleik í Mosó þar sem ég er alinn upp í golfi.
Hvað væri það fyrsta sem þú myndir leiðbeina byrjanda með?
Vertu þolinmóð/ur fyrsta árið og ekki gefast upp. Gefðu þessu séns. Þetta kemur.
Ertu hjátrúarfullur hvað varðar golf?
Nei í raun engin hjátrú, Kristján vinur minn í Kópavogi er með hjátrú. Kastar kylfum hingað og þangað ef það gengur illa. Hann verður oft betri næstu holur eftir það.
Hvað er það sem þú þarf mest að bæta í þínum golfleik?
Stiffa boltann oftar af 30 – 50 metrum
Hvernig er lífið og golfið á tímum COVID-19?
Það er skrýtið. Spilaði í Sandgerði um daginn og fattaði síðan að ég var búinn að gleyma 2 metra reglunni þegar við létum mynda okkur félagarnir. Fékk eiginlega samviskubit strax en aldrei í lífinu bjóst ég við að geta ekki gefið makkernum mínum fimmu eftir gott pútt eða högg eða ekki fengið að heyra þegar boltinn dettur ofan í bolla. En maður tekur þetta samt allan daginn, að geta farið og sveiflað og fengið útiveruna. Vonandi kemst þetta í eðlilegt horf fyrr en síðar.
Ríkharð Óskar Guðnason
Aldur: 35
Klúbbur: Keilir
Forgjöf: 7,3
Uppáhalds matur: Pizza
Uppáhalds drykkur: Pepsi Max
Uppáhalds kylfingur:
Ég get ekki gert upp á milli nokkra spilfélaga. Ég er mjög heppinn með golfvinahóp. Uppáhalds kylfingur erlendis er Miguel Angel Jimenez, sá allra svalasti í þessum bransa. Svalasti íslenski kylfingurinn er Marel Baldvinsson. Starfsemi stoppar í golfskálum í dágóða stund um leið og hann labbar inn og rennir hendinni yfir smjörsleikt hárið.
Þrír uppáhaldsgolfvellir:
Á Íslandi er það Keilir, Oddur og Mosfellsbær
Þrjár uppáhalds golfbrautir á Íslandi:
13. brautin í Keili er ein sturluð hola, 7.hola í Kiðjabergi par 3 með háu droppi er frábær og 15. hola í Grafarholti er ein tignarleg hola líka.
Erfiðasta golfholan:
15. hola í Keili. Sett fleiri bolta út í sjó en bátar koma til hafnar þar árlega!
Erfiðasta höggið: Gegn miklum vindi þar sem lendingasvæðið er þröngt
Ég hlusta á: FM957
Besta skor: 70 högg á Hellu.
Besti kylfingurinn: Brooks Koepka, lifir fyrir stærstu mótin.
Golfpokinn: Taylor Made
Dræver: Taylor Made
Brautartré: Ping
Járn: Taylor Made
Fleygjárn: Taylor Made
Pútter: Eitthvað drasl, man ekki nafnið, tími bara ekki að skipta honum út. Virkar vel.
Hanski: Er hanskaböðull svo kaupi bara einhverja.