Hefur tvívegis sveiflað kylfu í andlit
Kylfingur dagsins ólst upp við Garðavöll á Akranesi og því ekki skrýtið að hann hefði ungur tekið sér kylfu í hönd, sem hann reyndar sveiflaði í andlit félaga sinna. Hann hefur alltaf verið í Golfklúbbum Leyni á Akranesi og er núverandi formaður. Hann hefur spilað Garðavöll á undir 70 höggum og til að ná því oftar telur hann sig þurfa fækka slæmu höggunum af teig. Kylfingur dagsins er Hróðmar Halldórsson.
Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvernig gerðist það?
Bjó við þau forréttindi að alast upp við Garðavöll á Akranesi en uppeldisheimilið mitt var staðsett innan við 100 m frá núverandi 18 teig vallarins. Var níu til tíu ára gamall þegar ég byrjaði að fikta við golfið og gekk svo í klúbbinn í kjölfarið og hef verið þar dyggur þátttakandi síðan. Tók meira að segja að mér formennsku fyrir GL fyrr í vetur.
Helstu afrek í golfinu?
Hugsa að það séu tveir íslandsmeistaratitlar í sveitakeppnum unglinga. Fyrri var í Sandgerði árið 1997, þá fjórtán ára gamall og sá seinni var árið 1999 þegar við félagarnir í GL unnum 16-18 ára keppnina á GKG vellinum. Náði líka að komast í unglingalandsliðið á þessum árum og lék til að mynda fyrir Íslands hönd á Norðurlandamóti piltalandsliða í Danmörku árið 2000.
Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í á golfvellinum?
Þegar ég var að fóta mig á mínum allra fyrstu árum í golfinu þá lenti ég því miður tvisvar í því að sveifla kylfunni í andlit tveggja aðila, annars vegar frænda míns Halla og svo æskufélaga míns Sigurkarls.
Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?
Ætli það sé ekki bara Birgir Leifur Hafþórsson.
Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf?
Ég var það klárlega á mínum yngri árum, en það hefur nú minnkað mikið.
Hvað er það sem þú þarft mest að bæta í þínum golfleik?
Fækka slæmu höggunum af teig.
Aldur: 40 ára.
Klúbbur: GL
Forgjöf: 3,5
Uppáhaldsmatur: Nautalund með sætri kartöflu og bernaise.
Uppáhaldsdrykkur: Pepsi max, vatn, en það jafnast samt ekkert á við eina ískalda Stellu að loknum 18 holum á erlendri grundu.
Uppáhaldskylfingur: Rory McIlroy og Justin Thomas.
Þrír uppáhaldsgolfvellir: Garðavöllur Akranesi, Grafarholtið og Brabazon á Belfry.
Þrjár uppáhaldsgolfbrautir á Íslandi: 6. og 17. brautin á Garðavelli sem og 15.
brautin í Grafarholti.
Erfiðasta golfholan: Ég held ég verði að setja þetta bara á 9. holuna á Garðavelli.
Erfiðasta höggið: 50 metra glömpuhögg.
Ég hlusta á: Langmest á íþróttatengd hlaðvörp, mikið til tengt NBA og fótbolta.
Besta skor: 69 högg á Garðavelli Akranesi.
Besti kylfingurinn: Tiger Woods langbestur í sögunni.
Golfpokinn – Titleist burðarpoki.
Dræver: - Titleist TS3, 10,5 gráður, stiff skaft.
Brautartré: - Titleist TS2 þrjú tré.
Járn: Titleist T100 járn, 4-pw.
Fleygjárn: Titleist SM9 járn, 52, 56 og 60 gráður.
Pútter: Á tvo Scotty Cameron púttera og svo einn nýjan Spider TM pútter, sem ég rúlla með – fer allt eftir dagsforminu.
Hanski: Titleist, hvítur leðurhanski.
Skór: Foot joy.