Kylfukast: Klikkað Íslands Mót
„Við viljum að upplifun keppenda verði þannig að þeim þyki merkilegt að fá að taka þátt í þessu stærsta golfmóti Íslands,“ sagði Ólafur Þór Ágústsson framkvæmdastjóri Keilis í nýjasta hefti Golfs á Íslandi.
Eftir að hafa leikið 36 holur á Hvaleyrarvelli er ekki hægt að segja annað en Keilismenn séu að hitta beint í mark. Vallaraðstæður voru frábærar sem er svo sem engin nýlunda þar á bæ, en upplifunin var meiriháttar. Félagsmenn í Keili taka virkan þátt í mótahaldinu uppáklæddir í einkennisbúning mótsins. Skor hjá öllum þátttakendum tekið holu fyrir holu, forverðir um allan völl, þannig að erfitt reyndist að týna bolta. Allir áttu það sameiginlegt að bera sig að eins og atvinnumenn við mótahald. Það kemur smá fiðringur í magann þegar fyrrverandi bæjarstjórinn kynnir leikmenn á fyrsta teig. Maður er þá ekki alveg búinn að tapa keppnisgleðinni. Sem betur fer.
Á tveimur 18 holu hringjum hefur kylfukastari skemmt sér með blikksmið frá Bolungarvík, sérfræðingi í holustaðsetningum úr Grafarholti, bæjarstjórasyni úr Mosfellsbæ og golfkennara frá Dalvík. Auðvitað hefðum við allir viljað sjá aðeins lægri tölur á skorkortinu, en það eru forréttindi að fá að leika á Íslandsmótinu í golfi í rjómablíðu í Hafnarfirðinum.
Ég vil hvetja golfáhugamenn á Íslandi að missa ekki af þessari hátíð. Þrátt fyrir að einungis 150 þátttakendur fái að leika 18 holurnar, þá er besta holan á vellinum opin öllum. Það er sú nítjánda. Hún var tekin til gagngerra endurbóta nú í vor og hafa þær framkvæmdir tekist einstaklega vel. Matseðillinn og mjöðurinn eru í hæsta gæðaflokki og verðið á kræsingunum einstaklega sanngjarnt. Hádegis- eða kvöldverður í golfskálanum á Hvaleyri, eða bara einn kaldur á kantinum er góð hugmynd fyrir þessa helgi. Brynja tekur vel á móti ykkur.
Á þessu Íslandsmóti eru meðal keppenda tveir af þremur stigahæstu kylfingunum í „Nordic Golf League“, Axel Bóasson og Haraldur Franklín Magnús, atvinnumaðurinn Valdís Þóra og fleiri frábærir og upprennandi íslenskir kylfingar sem eiga eftir að ná langt á næstu árum. Gæðin í golfinu sem boðið er uppá eru að ég held betri en nokkru sinni áður á Íslandsmóti.
Til hamingju Keilismenn, þetta er „klikkað“ mót.
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson.