Kylfukast

Kylfukast: KIM
Séð yfir eina glæsilegustu golfbraut landsins, 15. holu í Grafarholti.
Laugardagur 17. júní 2017 kl. 11:36

Kylfukast: KIM

Samkvæmt upplýsingum frá forseta Golfsambandsins er GSÍ nú að taka forystu á heimsvísu með því að fækka holum á Íslandmótinu í holukeppni úr 18 niður í 13 í hverri umferð. Klappstýra herferðarinnar er samkvæmt vefsíðu sambandsins enginn annar en framkvæmdastjóri sænska golfsambandsins.

Kæmi einhverjum á óvart að borgarstjóri hefði haft samband við formann GR í framhaldi af fréttum um þetta mál og óskað eftir því að GR léti af hendi landsvæði í Grafarholti þar sem nú standa golfholur nr. 13, 14, 15, 16, og hluta af þeirri tólftu. Reykjavíkurborg vantar landsvæði undir stórar iðnaðarlóðir og þetta svæði er kjörið til þess að bæta við flóruna þar sem nú byggja Garri og Brimborg. Golfvellir þurfa ekki að vera 18 holur lengur og því kjörið að auka við byggð með hagkvæmum hætti.  Á sama máta má stækka Rjúpnahæðina í Kópavogi með því að taka í burtu 6.,7.,8.og 9. brautirnar í Leirdalnum enda enginn sem í raun nennir að labba alla leiðina þangað uppeftir. Hraunið á Hvaleyrinni, sá hluti sem ekki endar undir vegagerð, fer undir fleiri einbýlishús enda alveg nóg að vera með 12 holur uppi á Hvaleyrinni. Vestmannaeyjabær getur fengið góðar útsýnislóðir á 13.,14.og 15. brautunum í Eyjum.

Þeim sem treyst er fyrir utanumhaldi um næst vinsælustu íþróttagrein landsins þurfa að vera þeim gáfum gæddir að vera búnir að hugsa málin alla leið þegar þeir stíga fram með snilldarhugmyndir sem virðast eingöngu þjóna þeim tilgangi að hreykja hátt sjálfum sér. Af hverju annars ætti  golfsamband sem býr við þann kost að hafa flestar golfholur á mann í heiminum öllum að taka að sér forystuhlutverk í fækkun golfholna í keppni?

Miðað við að margur verði af aurum api þá gerir draumurinn um heimsfrægð menn að apaheilum. Ófyrirséðar afleiðingar þessa frumhlaups geta orðið gríðarlegar fyrir golf á Íslandi í framtíðinni af því það eru ekki allir sem eru hrifnir af landnotkun undir golfvelli. Enginn hefur verið að velta því fyrir sér. Formenn golfklúbbanna sitja hljóðir og sumum finnst kannski bara ágætt að koma með smá krydd í íþróttina. Það verður gaman að fylgjast með hvernig tekið verður í hugmyndir þeirra hjá sveitastjórnum þegar næst verður farið að ræða stækkanir á íþróttamannvirkjum. 

Heimsfrægð GSÍ í þessu máli verður minnisvarði um „Klúður í mótahaldi“, skammstafað KIM.

Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson