Kylfukast

Kylfukast: Kári súkkulaðikleina
Frá Hlíðavelli í Mosfellsbæ, heimavelli Kára Hinrikssonar.
Þriðjudagur 16. júní 2015 kl. 00:10

Kylfukast: Kári súkkulaðikleina

Í Keflavík í gamla daga var það kallað að vera súkkulaðikleina þegar maður fékk að vera með en samt ekki. Þetta átti sérstaklega við þegar þeir sem áttu yngri systkyni neyddust til að hafa þau með í einhverjum leikjum sem þau þóttu í raun ekki nógu góð til að geta tekið þátt í. Til að skilja þau ekki alveg útundan fengu þau að vera með en tilkynnt var fyrirfram að viðkomandi væri „súkkulaðikleina“. 
 
Kári Hinriksson fékk um síðustu helgi viðlíka trakteringar hjá Golfsambandi Íslands. Kári hefur stundað golf í fjölda ára en hefur þótt ungur sé því miður þurft að eyða kröftum sínum undanfarin ár í baráttu við krabbamein. Þar hefur hann sýnt að hann er mikill keppnismaður og haft betur sí ofan í æ, þegar líkurnar hafa verið á móti honum. Það gefur alltaf eitthvað eftir þegar menn berjast fyrir lífinu. Kári er gangandi kraftaverk. Sigurvegari. Eftir báráttu sína getur hann spilað golf en kemst ekki 18 holu hring nema á golfbíl.
 
Kári er liðtækur kylfingur með 7,8 í forgjöf og langaði að spreyta sig gegn þeim bestu á Eimskipsmótaröðinni á sínum heimavelli í Mosfellsbæ og óskaði því eftir heimild til noktunar á golfbíl til mótanefndar GSÍ.
 
Það kemur skýrt fram í reglunum að óheimilt er að nota hjálpartæki eins og golfbíl í keppni þeirra bestu. Að því er best er vitað hefur slík undanþága ekki verið veitt áður. 
 
En niðurstaða mótanefndarinnar var með ólíkindum, en eftirfarandi var haft eftir forseta GSÍ á vefnum DV.is
 
„Fyrst vil ég taka fram að við gleðjumst yfir áhuga Kára á að taka þátt í mótinu og viljum bjóða hann velkominn til leiks. Við bjóðum honum fulla þátttöku í mótinu fyrir utan það að hann getur ekki unnið til verðlauna vegna þess að almenna reglan er sú að golfbílar eru bannaðir. Það gildir í öllum íþróttagreinum, hvort sem það er knattspyrna, sund eða golf, að í keppni þeirra bestu eru hjálpartæki ekki leyfð.“
 
og DV spyr: Þannig að árangur hans í mótinu gildir svo lengi sem hann nær ekki verðlaunasætI?
 
„Já,já, hann leikur þarna bara eins og allir til forgjafar og árangurinn fer bara inn á hans forgjafarskírteini.“
 
Í stuttu máli þýðir þetta svar:
Já, Kári má vera með, en hann er súkkulaðikleina.
 
Ég er hlynntur því að fylgja reglum í golfi. Til þess eru þær settar. Hvað sem því líður er sagan þó þyrnum stráð. Sama þó að fram til þessa hafi aldrei verið veitt undanþága til notkunar á golfbíl við keppni á mótaröð hinna bestu.
 
Það sem ég fæ ómögulega skilið er að ef að það var í lagi að leyfa Kára að leika með á golfbílnum til forgjafar. Af hverju var þá ekki í lagi að leyfa honum að leika á golfbílnum og keppa til verðlauna? Nei, hér eru engar undanþágur veittar hefði verið miklu hreinlegra svar. Samkvæmt reglunum alveg klárlega hið rétta svar.
 
En hefði ekki verið smart að setja þetta frekar svona upp:
 
Ágætu kylfingar,
 
Það er okkur sönn ánægja að kynna að í tilefni þess að leikið er á Hlíðavelli í Mosfellsbæ í fyrsta skipti á Eimskipsmótaröðinni býður Golfklúbbur Mosfellsbæjar Kára Hinrikssyni að leika í mótinu sem sérstökum gesti. Kári hefur verið meðlimur í klúbbnum frá unglingsárum. Undanfarin ár hefur Kári barist við krabbamein og vill GM bjóða honum til leiks að spreyta sig gegn þeim bestu. Sökum veikinda sinna mun Kári notast við golfbíl í mótinu og hefur mótanefnd GSÍ af því tilefni veitt sérstaka undanþágu í fysta sinn. Undanþágan er ekki fordæmisgefandi.
 
Virðingarfyllst,
Mótanefnd GSÍ.
 
Hefði þetta ekki verið frábært. Lífið er svo miklu skemmtilegra þegar regluprikið er ekki pikkfast einhvers staðar.
 
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson