Kylfukast: Íslandsmót í skugga golfbíls
Til hamingju Golfklúbburinn Leynir. Til hamingju Þórður Rafn og Signý. Það verður ekki annað sagt er að framkvæmd Íslandsmótsins í golfi hafi verið til mikils sóma og spilamennskan sem leikmenn buðu uppá sú besta sem sést hefur í íslenskri golfsögu. Því ber að fagna.
Heiðarleiki, jákvæðni og agi eru gildi golfhreyfingarinnar samkvæmt stefnu sem samþykkt var á Golfþingi árið 2013. Jákvæðnin og heiðarleikinn þurftu að víkja fyrir miklum aga á stefnu hreyfingarinnar þegar fundið var út að ómögulegt væri að verða við beiðni sexfalds Íslandsmeistara um notkun á golfbíl í Íslandsmótinu. Getur það verið að maður á sjötugsaldri sem hefur verið fulltrúi afreksgolfs á Íslandi lengur en flestir þátttakendur í mótinu hafa lifað sé enn svo skeinuhættur keppandi að það hefði raskað jafnvægi mótsins um of að heimila notkun farartækisins? Eða gefið hættulegt fordæmi? Svarið er augljóslega nei. Björgvin Þorsteinsson hefur í gegnum tíðina verið duglegur að gagnrýna GSÍ. Það er ekki vel liðið á þeim bænum. Það þekki ég sjálfur. Getur verið að sú gagnrýni hafi litað hina endanlegu ákvörðun?
Floridaskaginn eins og sumir heimamenn kalla Akranes skartaði sínu fegursta. Keppendur sýndu sínar bestu hliðar. Framkvæmd mótsins var Golfklúbbnum Leyni til mikils sóma. Því miður voru alltof fáir sem mættu á staðinn til að njóta alls þess góða sem uppá var boðið. Þegar forseti GSÍ afhenti Íslandsmeisturunum sigurlaunin voru í besta falli 200 manns viðstaddir. En það var ekki svo að gert væri ráð fyrir mörgum áhorfendum. 30 sæta stúkan við 18 flötina bar því gott vitni.
Er þetta umgjörðin sem golfhreyfingin sættir sig við kringum Íslandsmótið í golfi. Er þetta allur metnaðurinn sem við höfum fyrir móti hinna bestu? Góð framkvæmd er eitt, umgjörðin er annað. Er golfhreyfingin á réttri leið þegar aðsókn að Íslandsmóti næst stærstu íþróttagreinar landsins er viðlíka og hjá 2. deildar liði í knattspyrnu?
Mér sýnist að nú þegar eitt og hálft ár eru frá síðasta Golfþingi að spár mínar um getuleysi núverandi forystu golfíþróttarinnar séu að rætast. Kylfukastið um hugmyndafræðilegt gjaldþrot GSÍ sem á síðasta ári var mest lesna greinin á kylfingur.is á betur við í dag en þá. Á næstu árum erum við að öllu óbreyttu að horfa uppá verulega fækkun kylfinga í golfklúbbum, versnandi rekstrarskilyrði golfklúbba og fækkun þeirra.
Breytinga er þörf.
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson