Kylfukast: Handboltagolf
Fyrir nokkrum árum var kynnt hér á landi nýung sem kallast fótboltagolf. Þessi iðja ku vera ágætis skemmtun. Fótbolta er sparkað á túni og markmiðið er að koma honum í holu í sem fæstum spörkum. Ekki er hægt að segja fótboltagolf hafi náð mikilli útbreiðslu nema kannski sem skemmtun í hópefli.
Handboltagolf er mun vinsælla á Íslandi. Svo vinsælt að hinn eiginlegi golfleikur á ekki séns í samkeppninni.
Á einhvern óskiljanlegan máta meta forsprakkar golfíþróttarinnar á Íslandi vallaraðstæður svo slæmar að nauðsynlegt sé að leyfa þeim sem leika vellina að stilla upp bolta sínum innan kylfulengdar á snöggslegnu svæði. Á flötum má gera það sama, en þar er púttershaus mælieiningin. Þetta helbera kjaftæði er þess valdandi að íslenskir kylfingar telja sig stöðugt þurfa að stilla bolta sínum upp fyrir hvert einasta högg. Hjá sumum verður gjörningnum best lýst sem kæk. Mistakist þeim að hitta flöt er kjörið að nota kylfulengdina til þess að færa boltann beint í flatarkant og ná þannig að pútta, frekar en að þurfa hugsanlega að vippa.
Í flestum öðrum löndum væri þetta kallað að svindla.
Hvergi er þess getið í golfreglunum að leikmaður skuli hafa fullkomna legu þegar hann lendir á snöggslegnu svæði. Regla 13-1 kveður um að leika skulu boltanum þar sem hann liggur að undanskyldu því sem heimilað er í reglunum. Í Viðauka I - Ástand vallar, er gefin heimild til „vetrarreglna“. Þar segir:
„Á hinn bóginn geta erfiðar aðstæður, svo sem mikil snjóalög, vorleysingar, langvarandi rigningatíð eða miklir hitar, gert brautir óviðunandi og stundum hamlað notkun þungra sláttuvéla. Þegar slíkt ástand verður svo ríkjandi á vellinum að nefndin telur „bætta legu“ eða „vetrarreglur“ stuðla að sanngjörnum leik og verndun vallarins er mælt með eftirfarandi staðarreglu (sem ætti að nema úr gildi strax og aðstæður leyfa).“
Vallaraðstæður á Íslandi eru margfalt betri en svo að leyfa þurfi hreyfingar allt sumarið. Þetta er almesta kjaftæði sem golfhreyfingin öll hefur látið viðgangast allt of lengi. Nú er mál að linni. Svo mikið er ruglið að á Íslandi einu er talað um „hreyfingalaust golf“. Misskilningurinn er sá að í golfi eru engar hreyfingar heimilaðar. Það á að leika boltanum þar sem hann liggur. Þú átt einungis að snerta b
oltann tvisvar á hverri braut. Þegar þú tíar upp og þegar þú tekur hann uppúr holunni. Undantekningin er einungis sú, ef taka þarf lausn (droppa), ýmist gegn vítishöggi eður ei.
Ef alltaf á að leyfa hreyfingar er enginn hvati til að bæta golfvellina, því innan kylfulengdarinnar má alltaf finnna hina fullkomnu legu. Kylfingar sem alltaf leika upptíuðum bolta, þurfa aldrei að læra að slá högg úr krefjandi legu.
Allir tapa. Fyrir utan hvað þetta tefur leik. Á það er ekki bætandi.
Gerum betur og hættum þessu kjaftæði. Þetta er spurning um viðhorf. Hættið í handboltagolfi og spilið leikinn eftir reglunum.
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson