Kylfukast

Kylfukast: Er Jussi blindur?
Föstudagur 28. september 2018 kl. 10:22

Kylfukast: Er Jussi blindur?

Hann er snúinn aftur. Það er óþarfi að eyða mörgum línum af Kylfukasti í skrif um endurkomuna. Ganga Tígursins upp 18. holuna og múgæsingurinn er eitthvað sem ekki verður lýst í orðum. Ég hélt að Bítlarnir væru snúnir aftur.

Golfsumarið 2018 er í mínum huga það besta í fjölda ára. Þrátt fyrir dapurt veður framan af sumri lék ég einungis tvo golfhringi í veðri sem ekki myndi flokkast undir úrvals golfveður. Báðir eru með eftirminnilegustui dögum sumarsins. Fyrirtækjamót Nesklúbbsins. Leiknar 9 holur í „Foursome“ og boðið uppá hangiket og uppstúf á eftir. Þvílík snilld. Nesið skartaði sínu fegursta og ástand vallarins og umgjörð til mikillar fyrirmyndar. Við Rabbi vinur minn lékum saman í skemmtilegasta leikformi sem til er í golfi. Rabbi var frábær eins og alltaf á golfvellinum. Að þessum níu holum loknum gat ég ekki hugsað um annað en hvort þessi Jussi landsliðsþjálfari væri blindur. Er hann virkilega ekkert að fylgjast með. Af hverju er Rabbi ekki í landsliðinu?

Það getur brugðið til beggja vona þegar golf er leikið í september. Að mínu mati er september besti golfmánuður ársins. Vellirnir í toppstandi. Ég lék með Halla Heimis vini mínum í Eldri/Yngri bikar GR. Þar koma saman lágforgjafarkylfingar og leika holukeppni. Yngra liðið skipa leikmenn á aldrinum 18 - 30 ára eða svo. Eldra liðið er 30+. Föstudaginn 21. september var ekki sérlega hlýtt. En við létum okkur hafa það að spila „Betri bolta“ holukeppni eftir hádegi á Korpunni. Andstæðingarnir voru tveir úrvalsdrengir. Pétur (24 ára) og Elvar (18 ára). Leikurinn var stórskemmtilegur í alla staði þrátt fyrir að leikmenn þyrftu að klæðast öllum þeim hlýja golffatnaði sem þeir áttu. Í þessum leik okkar kristölluðust hinir frábæru kostir golfíþróttarinnar. Hún brúar kynslóðabilið. Á 18 holum verður til áhugavert spjall um heima og geima þrátt fyrir harða og skemmtilega keppni. Annar þessara pilta var ekki fæddur og hinn ungabarn þegar Tígurinn steig fram á sjónarsviðið og reif golfíþróttina upp á hærra plan en áður hafði þekkst.

Ég vona að endurkoma hans hafi sömu áhrif og sú upphaflega. Frekar en að hlaupa 50 kílómetra fjallamaraþon, synda í ísköldum vötnum og hjóla hringinn kringum landið segi fólk með stolti: „Ég er golfari“.

Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson