Kylfukast

Kylfukast: Bestur í 20 ár!
Mánudagur 8. ágúst 2016 kl. 11:53

Kylfukast: Bestur í 20 ár!

Nýverið landaði Birgir Leifur Hafþórsson sínum 7. Íslandsmeistaratitli í golfi. Þeim fyrsta náði hann fyrir 20 árum síðan. Hann tók framúr Björgvini Þorsteinssyni (1971-1977) og Úlfari Jónssyni (1986-1992) sem báðir unnu 6 titla á 7 ára tímabili. Enginn hefur þó unnið fleiri Íslandsmeistaratitla en Karen Sævarsdóttir, sem vann 8 titla á 8 árum (1989-1996).

Það er ekki margt í íslensku golfi sem náð hefur að lifa í blóma í 20 ár. Fyrir utan Birgi Leif eru það kannski helst að Óskar Pálsson hefur verið formaður Golfklúbbs Hellu, Ólafur Þór Ágústsson vallarstjóri og svo framkvæmdastjóri hjá Keili, Einvígið á Nesinu og svo náttúrlega fimm og hálfstíma hringurinn í Opnum golfmótum sem lifir enn góðu lífi þrátt fyrir endalausar kvartanir þar um. Það bara gerir enginn neitt í málinu.

Birgir Leifur er búinn að vera bestur í golfi á Íslandi í 20 ár. En þetta Kylfukast fjallar ekki um hann. Um Bigga er ekkert nema gott að segja. Það að hafa haldið sér við efnið í 20 ár og vera ennþá bestur er rós í hnappagatið. Biggi á það sameiginlegt með okkur öllum hinum að elli kerling mun ná að bíta hann í rassgatið. Að 20 árum liðnum verður hann 60 ára. Hann verður þá orðinn Björgvin Þorsteinsson.

Árið 1996 voru íslenskir golfáhugamenn orðlausir þegar 20 ára ungstyrni sýndi fádæma golfhæfileika í Vestmannaeyjum og tryggði sér Íslandsmeistarartitilinn. Nokkrir gallharðir golfáhugamenn tóku höndum saman og stofnuðu félagið ISL til að stuðla að því að Birgir Leifur gæti keppt meðal þeirra bestu á Evrópsku mótaröðinni. Golfsambandið þótti ekki í stakk búið til að standa undir slíkri útgerð. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Margir hafa reynt en orðið frá að hverfa. Birgir Leifur er enn að og sýndi að hann á fullt erindi á mótaröðina með frábærri spilamennsku á Áskorendamótaröðinni um liðna helgi.

Íslandsmótið á Jaðarsvelli í sumar var mikil skemmtun. Þar tryggði Birgir Leifur sér sigur með glæsilegum endaspretti. Í næstu sætum voru 11 kylfingar sem allir léku undir pari. Ég fullyrði að þeir eru allir miklu betri í golfi en Birgir Leifur var árið 1996 og þeir eiga allir miklu meira erindi á mótaröð þeirra bestu heldur en Birgir Leifur átti árið 1996.

Því væri eðlilegt að golfhreyfingin myndi spyrja sig: „Hvað ætlum við að gera í málinu?“

Eða erum við kannski ennþá bara á sama stað og 1996?

Með golfkveðju,

Margeir Vilhjálmsson