Kylfukast

Kylfukast: Allir með allt niðrum sig?
Þriðjudagur 19. júní 2018 kl. 09:38

Kylfukast: Allir með allt niðrum sig?

Hún hefur ekki verið gæfuleg byrjunin á golfsumrinu. Aldrei þessu vant er veðrið að trufla okkur hérna á norðurhjara veraldar. Vellirnir okkar komu því miður ekki vel undan vetri. Ýmsir kylfingar hafa látið ástand vallanna fara í taugarnar á sér. Það er ekki auðvelt starf að vera vallarstjóri þegar æðri máttarvöldin eru ekki að vinna með. Öðruvísi en í fyrra þegar einmunatíð gerði það að verkum að við fengum lengra og betra golfsumar en nokkru sinni áður.

Auðvelt er að falla í tuðgírinn og láta allt fara í taugarnar á sér. Vandinn er hinsvegar þessi. Mesti skemmdarvargurinn á golfvöllunum er notandinn. Kylfingurinn sem hefur svo ofboðslega gaman af því að leika golf. Stöðugt álag á golfvellina vegna notkunar þýðir að stöðugs viðhalds er þörf. Það þarf að slá flatir, brautir og teiga, færa holur, færa teiga, tína rusl, laga boltaför, raka glompur og svo mætti lengi telja. Það er einfalt verkefni að viðhalda golfvelli sem fáir eða enginn spila. Þegar í ofanálag bætist viðkvæmt ástand golfvalla á vorin, þá er oft spurning hvort ekki væri bara best að bíða með að opna þar til völlurinn er fullgróinn. En er einhver tilbúinn að bíða til 1. júlí? Golfvellirnir eru í frábæru standi í september og fram í miðjan október en þá hefur meirihluti kylfinga lagt kylfunum, því birtustundir bjóða ekki uppá golfiðkun eftir vinnu.
 
Ég byrjaði að leika golf sumarið 1985 og þá gerðu mér góðir menn fyrir því að tvær reglur væru ófrávíkjanlegar. Alltaf ætti að setja niður torfur sem slegnar væru upp og það væri alger skylda að gera við boltaför á flötum. Þessum reglum hef ég ávallt fylgt. Að vísu finnast vellir úti í heimi þar sem notast er við aðrar grastegundir en hér á norðurhjara, þar sem leikmenn eru beðnir um að setja torfusneplana alls ekki niður, en það er önnur saga. Því miður virðist algerlega hafa fyrirfarist að kenna íslenskum kylfingum þessar ófrávíkjanlegu reglur. Ég ætla að vísa því verkefni til Golfsambands Íslands og PGA á Íslandi. Í hvert skipt sem ég leik golf laga ég að meðaltali þrjú boltaför á flöt. Á myndinni hér að ofan sem tekin var á Leirdalsvelli föstudaginn 15.júní á 8.braut má sjá hvernig umgengni viðgengst á þeim ágæta velli. Við það að ná í mína torfu, sem er lengst til vinstri á myndinni og að sjálfsögðu komin í farið, gekk ég 5 skref og sótti hinar þrjár í leiðinni. Þvílík hörmung og ekki einsdæmi á golfvöllum landsins. Svo er kvartað undan ástandi golfvallanna. Í þessu máli eru allir með allt niðrum sig og sameiginlegt verkefni okkar allra að gera betur og líta í eigin barm. Við verðum að bæta umgengnina um golfvellina. Þetta eru ekki ruslahaugar. Þetta eru skrúðgarðar og við eigum að umgangast þá sem slíka.
 
Margt hefur breyst hér á landi frá árinu 1985. Þá var golf ekki mjög vinsæl íþrótt. Mestmegnis stunduð af furðufuglum. Á þessum tíma voru fyrstu golfbílarnir að koma til landsins. Golfbílar eru miklir skaðvaldar á golfvöllum. Það er ekki að ástæðulausu að notkun þeirra er bönnuð á flestum bestu golfvöllum heims. Kylfingur sem ferðast um golfvöll á golfbíl veldur að lágmarki fimmfalt meiri skaða á golfvellinum heldur en kylfingur sem fer um golfvöllinn með golfkerru.
 
Mikill meirihluti þeirra kylfinga sem nú stunda golf, hófu iðkun uppúr síðustu aldamótum. Á þessu ári höfum við upplifað blautasta maímánuð sögunnar, sá síðasti sem náði að keppa við þennan var árið 1989. Það er því kannski ekki furða að við séum að horfa á golfvellina okkar eiga aðeins undir högg að sækja, en þeir munu ná sér fyrr en varir vegna þeirrar alúðar sem vallarstjórar landsins leggja í að hafa þá góða. Á meðan munu kylfingar þurfa að sýna örlítinn vott af þolinmæði, vinna í að bæta leik sinn og síðast en ekki síst umgengni um golfvellina. Svo væri ekki verra að hvetja vallarstarfsmenn til dáða og sýna þeim stuðning.
 
Margeir Vilhjálmsson