Kylfukast

Kylfukast: Rástímavandi golfklúbba
Laugardagur 2. maí 2020 kl. 10:14

Kylfukast: Rástímavandi golfklúbba

Þann 4.maí kveðjum við endalega heimskustu golfreglur sem settar hafa verið. Að pútta í bolla er ekkert golf.  Framundan er golfsumar sem stefnir í að verða það langt stærsta í sögunni.

15 mínútna rástímareglan hefur búið til mikinn skort á rástímum í upphafi golftímabils. Að auki hafa fjölmargir aðilar talið það í góðu lagi að bóka sig í rástíma og mæta svo ekki til leiks. Það er ekki bara skandall heldur er það líka sorglegt. Rástímar eru í raun eina tekjulind golfklúbba. Félagsmenn greiða fyrir ótakmarkaðan fjölda  með árgjaldi og gestir greiða fyrir staka tíma. Rástími sem er liðinn kemur ekki aftur og hann verður að selja fyrirfram. Skróp eru tapaðar tekjur fyrir rekstraraðila golfvallarins. Fyrir rástíma sem ekki er mætt í á hiklaust að rukka. Síbrotamenn á að setja í straff. 

Golfklúbbar eiga að taka greiðslu fyrir rástíma þegar þeir eru bókaðir. Þetta er vera hægt í nýju kerfi Golfbox. Skiptir þá engu hvort um er að ræða félagsmenn eða utanfélagsmenn. Hægt væri að beita nokkrum útfærslum. Sú einfaldasta væri að innheimta af öllum sem ekki eru félagsmenn fullt gjald. Kylfingar myndu fljótlega fara að vanda sig við bókanir rástíma, og ekki bóka nema þeir væru fullvissir um að þeir myndu mæta.

Önnur hugmynd væri að innheimta 250 - 500 kr. skráninargjald á mann af öllum sem bóka rástíma. Þannig myndi hvert holl kosta 1-2000 krónur. Kylfingar myndu svo gera upp vallargjald við komu á völlinn og fengju inneign á 19. holunni fyrir skráningargjaldinu. T.d. einn kaldan, eða kaffi og kleinu. 

Kylfingar sem dúkka upp á staðnum án þess að bóka rástíma sleppa við skráningargjaldið - en taka sénsinn á því að bíða eftir því að komast að. Yfirleitt þýðir sú bið að kylfingar kaupa sér eitthvað í veitingasölunni meðan þeir bíða.

Golfklúbbar ættu einnig að fjölga hjá sér rástímum með því að ræsa út á 8 mínútna fresti. Fyrir því eru tvenn megin rök. Annars vegar hefur sú breyting á golfreglunum að hafa stöngina í holunni flýtt leik verulega og fyrirsjáanlegt er að eftirspurn eftir rástímum í sumar muni aukast verulega. Með því að stytta bilið úr 10 í 8 mínútur fjölgar rástímum um 25%. Á hverju 2 tíma bili verða rástímarnir 15 í stað 12.  

Á völlum þar sem ræst er út í 10 klukkustundir fá 300 manns rástíma í stað 240. Það eru 60 manns á dag x 120 golfdagar eða 7.200 fleiri fá tíma. 

Sem dæmi: 7.200 manns á 3.500 vallargjald gera 25.200.000 krónur eða bara fjölmargir ánægðir félagsmenn sem fá rástíma.

Kylfukastið er boðið og búið að veita golfklúbbum landsins ráðgjöf um rekstur golklúbbanna. Greinarhöfundar er þrátt fyrir oft umdeildar skoðanir eini maðurinn sem verið hefur framkvæmdastjóri tveggja stærstu golfklúbba landsins, byggði Bása, Korpúlfsstaðavöll, nýrri helminginn af Öndverðarnesi auk fleiri smærri verka í rekstri og viðhaldi golfvalla.

Með golfkveðju,

Margeir Vilhjálmsson