Public deli
Public deli

Fréttir

Vefmyndavélar í öryggisskyni á Gufudalsvelli í Hveragerði
Taktu mynd af QR kóðanum og þá birtist vefmyndavél.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 21. júní 2024 kl. 12:36

Vefmyndavélar í öryggisskyni á Gufudalsvelli í Hveragerði

Settar hafa verið upp tvær vefmyndavélar á Gufudalsvelli Golfklúbbs Hveragerðis. Einar Lyng, rekstrarstjóri klúbbsins segir uppsetninguna aðallega hafa verið gerða í öryggisskyni í kjölfar þess að kylfingur fékk bolta í andlitið á 2. braut fyrir tveimur árum og slasaðist.

„Óhappið varð í meistaramóti klúbbsins. Kylfingurinn fékk boltann í andlitið, sem betur fer eftir eitt skopp en í kjölfarið fórum við að huga að því hvernig við gætum minnkað þessa hættu. Eftir nokkra hugmyndavinnu og pælingar var niðurstaðan sú að setja upp vefmyndavélar á fyrsta og öðrum teig. Þetta er nýkomið í gagnið og er að virka glimrandi vel,“ segir Einar.

Áður var bjalla sem hægt var að láta klingja eftir leik á fyrstu flöt sem er blind frá fyrsta teig upp eftir brautinni sem er stutt par 4. Í vissum vindáttum heyrðist ekki í bjöllunni. Hættan á annarri braut var eftir teighöggið þar sem ekki var hægt að sjá kylfinga að leik þegar þeir voru komnir áleiðis á brautinni. Nú sýnir hún mynd af allri brekkunni á brautinni og kylfinga að leik (ef þeir eru þar). Þegar kylfingar sjást ekki eru þeir komnir lengra en rúmlega 200 metra og því ekki lengur í hættu. Sjá má hverastrók efst í mynd og gufan úr honum sýnir vel vindáttina og veður á hverjum tíma.

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

„Kylfingar sem eru að hefja leik þurfa bara að taka mynd af QR-kóða á skilti og geta þannig séð hvað vefmyndavél sýnir en þurfa að gera þetta á fyrstu tveimur teigunum,“ sagði Einar.

Starfið gengur vel á Gufudalsvelli að sögn Einars sem var á fullu í kennslu með ungmenni á námskeiði þegar fréttamaður kylfings.is heyrði í honum. „Völlurinn er í mjög góðu standi og sumarið leggst vel í okkur. Við gerðum vinavallasamninga við klúbba á höfuðborgarsvæðinu sem gilda á virkum dögum og það er því aukin traffík þaðan. Svo fáum við alltaf fjölda gesta alla daga vikunnar enda margir kylfingar sem dvelja á Suðurlandi í fríinu sínu.“

Hér má sjá skjámynd af vefmyndavélunum á heimasíðu klúbbsins.