Fréttir

Tvö draumahögg í sama hringnum - fjör í Íslandsmótum klúbba í neðri deildum
Ofurkylfingarnir Halldór Sævar og Heimir Þór Ásgeirsson fóru báðir holu í höggi í sama leiknum. Mynd/Sigurþór Jónsson.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 15. ágúst 2022 kl. 10:13

Tvö draumahögg í sama hringnum - fjör í Íslandsmótum klúbba í neðri deildum

Það er sjaldgæft að kylfingar fari holu í höggi í mótum en gerist þó en það er enn sjaldgæfara að tvö draumahögg fari í holu í sama 18 holu hringnum og það hjá sitt hvorum leikmanninum. Kylfingarnir Halldór Sævar í Golfklúbbi Hornafjarðar og Heimir Þór Ásgeirsson í Golfklúbbnum Vestarr negldu báðir í holu í leik þeirra í 5. deildinni sem fór fram á hinum skemmtilega Silfurnesvelli á Hornafirði. Halldór fór holu í höggi á 5. braut og Heimir Þór svaraði með holu í höggi á 11. holu og vann síðan viðureignina. 

Alls tóku 5 lið þátt í þessari deild. Keppt var í einum riðli og leikin var ein umferð. Efsta liðið fer upp í 4. deild. Í hverri umferð var leikinn einn fjórmenningsleikur og tveir tvímenningsleikir. Golfklúbburinn Vestarr, GVG, frá Grundarfirði stóð uppi sem sigurvegari og fer upp í 4. deild á næsta ári. Golfklúbburinn Jökull, frá Ólafsvík, varð í öðru sæti og heimamenn í Golfklúbbi Hornafjarðar enduðu í þriðja sæti.

Íslandsmót golfklúbba 2022 í 4. deild karla fór fram á Kálfatjarnavelli hjá Golfklúbbi Vatnsleysustrandar. Golfklúbburinn Geysir sigraði Golfklúbb Siglufjarðar 2-1 í úrslitaleiknum og tryggði sér þar með sæti í 3. deild að ári. Golfklúbbur Vatnsleysustrandar sigraði Golfklúbb Sandgerðis í leiknum um þriðja sætið. Golfklúbbur Álftaness féll í 5. deild.

Lið Geysis.

Golfklúbbur Skagafjarðar sigraði í 3. deild sem haldin var á Ísafirði. Alls voru 8 lið í þessari deild. Keppt var í tveimur riðlum og léku tvö efstu liðin úr hvorum riðli í undanúrslitum. Neðsta liðið féll í 4. deild.Í hverri umferð var leikinn einn fjórmenningsleikur og tveir tvímenningsleikir. 

Golfklúbbur Skagafjarðar, GSS, sigraði Golfklúbb Húsavíkur,GH, 2-1 í úrslitaleiknum og tryggði sér sæti í 2. deild að ári. Golfklúbbur Hveragerðis, GHG, endaði í þriðja sæti eftir sigur gegn Golfklúbbi Borgarness, GB í leik um þriðja sætið. Golfklúbbur Grindavíkur endaði í neðsta sæti eða því 8. og leikur í 4. deild á næsta ári.

Lið Skagfirðinga.