Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Titraði smá yfir púttinu fyrir 59 höggum - viðtal
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 1. september 2025 kl. 16:15

Titraði smá yfir púttinu fyrir 59 höggum - viðtal

Haraldur Franklín fer yfir besta hring sinn á ferlinum

„Það gekk mest allt upp í hringnum en ég titraði aðeins yfir púttinu á lokaflötinni fyrir 59 höggum. Ég hef aldrei áður átt möguleika á því. Ef það hefði farið ofan í hefði ég sett meiri pressu á Danann sem vann mótið,“ segir atvinnukylfingurinn Haraldur Franklín Magnús en hann endaði í 2. sæti á Dormy mótinu í Uppsala í Svíþjóð á Áskorendamótaröðinni í Evrópu um síðustu helgi.

Þetta er jöfnun á besta árangri hjá Haraldi í atvinnumennskunni. Hann lenti í bráðbana árið 2021 fyrir sigri en varð að lúta í gras þá. „Ég er búinn að segja að ég ætli ekki að leyfa Birgi Leif að eiga það einn, að hafa unnið mót á Áskorendamótaröðinni,“ segir Haddi en okkar maður segist hafa ákveðið að setja sig í enn meiri „gír“ fyrir lokahringinn því hann þurfti að vera meðal efstu tíu til að komast í næsta mót í Póllandi. Var í raun með bakið upp við vegg.

Ævintýri á fyrstu holu

Á fyrstu holu var nauðsynlegt að sveigja upphafshöggið (drævið) til hægri en ekki vildi betur til að boltinn endaði rétt við tré. „Ég var ekki langt frá því að brjóta 9-járnið en ég náði frábæru höggi sem endaði í flatarkanti og bjargaði tvípútti og parinu. Nían slapp líka,“ sagði Haddi og hlær en þetta var eins og vítamínsprauta því hann fékk fugl á næstu þremur holum en þurfti svo að beita brögðum til að ná pari á 6. braut sem er par 3 en gerði það með góðu vippi.

Örninn 2025
Örninn 2025

Hann lenti aftur í vandræðum á 7. holu þegar innáhöggið fór vel yfir flötina en „Seve“ flopp högg frá 40 metrum fór að pinna og parið bjargaðist.

Á áttundu holu var okkar maður aftur með „Seve“ gæði í vippinu. Brautin er vanalega par 5 en var breytt í par 4 í mótinu. Haddi átti gott „dræv“, annað höggið með 3-járni fór nálægt flöt og síðan vippaði hann ofan í fyrir glæsilegum fugli. Kominn fimm undir par! Svo kom létt par á 9. braut, munaði litlu að sjötti fuglinn sæi dagsins ljós.

Sókn á seinni níu

Haraldur var kominn til Póllands þegar blaðamaður hringdi í hann á leið í ræktina á hóteli. Það var við hæfi að spyrja hann hvort hann hafi ekki hugsað sinn gang í miðjum lokahring á fimm undir pari. Hann jánkaði því en hann ákvað samt að sækja áfram fleiri fugla.

„Eftir þægilegt par á tíundu komu aftur þrír fuglar í röð. Það eru sóknarfæri á seinni níu holunum. Ég var að slá vel og var í sóknarhug og fékk fugl á 11., 12. og 13. holu. Á holum 12, 16 og 17 púttaði ég fyrir erni en fékk fugla. Þetta eru tvær par 5 holur og 17. braut er 280 metra löng og ég drævaði inn á flöt. Þegar ég stóð á 18. teig var ég sex undir pari á seinni níu eftir átta holur og vissi að ég þyrfti einn fugl í viðbót til að ná 59 höggum. Tók smá áhættu í upphafshögginu á lokabrautinni og var heppinn að lenda ekki í glompu, fór rétt yfir hana en náði ágætu höggi inn á flöt, sem endaði um fjóra metra frá holunni. Var handviss á línunni og hitti púttið vel þó ég hafi titrað aðeins en boltinn fór rétt framhjá og stöðvaðist nánast á brúninni. Varð að sætta mig við 60 högg,“ sagði Haddi léttur í bragði og svarar því játandi hvort hann hafi verið í „són“. „Já, þetta var þannig. Gekk nánast allt upp“.

Bætti sig á stigalistanum um hundrað sæti

Niðurstaðan 2. sætið og það fleytir honum í næsta mót sem verður í þessari viku í Póllandi. Síðan er smá óvissa með næstu mót á eftir en Haddi bætti stöðu sína á stigalistanum um 100 sæti, er komin í 55. sæti en var í 155. sæti fyrir mótið.

Eftir Póllandsmótið eru mót í Portúgal og Ítalíu og í haust fá 70 efstu á stigalistanum þátttökurétt í tveimur mótum í Kína.

En hvernig hefur spilamennska verið hjá þér í sumar?

„Hún hefur verið stöðug en aðeins of mikið miðjumoð getum við sagt. Ég hef komist í gegnum niðurskurðinn í þessum sjö mótum sem ég hef leikið í en þurfti að hætta eftir 36 holur í einu vegna meiðsla. Ég hef ekki náð nógu góðum árangri á seinni 36 holunum í þessum mótum. Miðjumoðið gefur ekki nógu mikið en fyrsta eða annað sætið mjög mikið,“ segir Haddi sem með þessum árangri er alla vega búinn að losa sig af fyrsta úrtökumótinu fyrir DP mótaröðina.

En hvernig er hugurinn fyrir næsta mót?

„Bara einbeita mér að því áfram að spila gott golf og ná vonandi að bæta stöðuna á stigalistanum.“