Fréttir

Tía upp í Tékklandi
Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefja leik í Tékklandi í dag. Ljósmynd: GSÍ/Sigurður Elvar Þórólfsson
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
föstudaginn 24. júní 2022 kl. 06:19

Tía upp í Tékklandi

Evrópumótaröðin er komin til Tékklands og okkar konur eru til í slaginn.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR og Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr GK hefja leik í Tékklandi á fyrsta hring Czech Ladies Open í dag en mótið fer fram á Royal Beroun vellinum.

Ólafía, sem leikur á sínu þriðja móti á keppnistímabili Evrópumótaraðarinnar, verður ræst út á fyrsta hring laust fyrir klukkan ellefu á íslenskum tíma. Guðrún Brá, sem leikur á tíunda móti sínu á keppnistímabili mótaraðarinnar, verður ræst út rúmri klukkustund síðar.

Guðrún Brá sagði í stuttu samtali við kylfing.is fyrir mót að hún hafi spilað völlinn tvisvar áður þannig að hún þekkir hann nokkuð vel.

„Það gefur manni alltaf smá forskot og öryggi. Það sem einkennir völlinn er fyrst og fremst mikill hæðarmismunur. Nú er ég að hefja törn þar sem ég mun leika í fjórum mótum í röð. Það leggst virkilega vel í mig og ég er mjög spennt fyrir því að hefja leik.“

Ólafía Þórunn sagðist ætla að reyna að hafa extra gaman í þessu móti.

„Ég setti of mikla pressu á mig í síðasta móti og ég þarf að finna meiri léttleika. Foreldrar mínir eru með og eru að passa Maron. Pabbi varð sjötugur í vikunni og við dveljum hjá vinafólki okkar. Ég elska Tékkland og þennan völl. Það er sérstök og skemmitleg tilfinning að vinna saman.“

Ólafía Þórunn slær upphafshögg á æfingahring í vikunni.