Fréttir

Stenson og Reed deila tveggja högga forystu í New Jersey
Henrik Stenson skrifaði nýlega undir samning við LIV Golf og var í kjölfarið sviptur fyrirliðastöðu Ryder bikarliðs Evrópu. Hann leiðir mótið ásamt Patrick Reed eftir fyrsta hring. Ljósmynd: Seth Weng/AP
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
laugardaginn 30. júlí 2022 kl. 01:56

Stenson og Reed deila tveggja högga forystu í New Jersey

4 Aces GC er á toppnum

Þriðja mótið á LIV Golf invitational mótaröðinni hófst á Trump National í Bedminster í New Jersey í Bandaríkjunum í gær. Einn af þeim sem skrifaði nýlega undir samning við LIV Golf, Henrik Stenson frá Svíþjóð byrjaði vel á fyrsta hring. Stenson lék á 64 höggum eða á 7 höggum undir pari vallarins og leiðir mótið sem stendur ásamt Bandaríkjamanninum Patrick Reed.

Taílendingurinn, Phachara Khongwatmai, sem varð m.a. yngsti atvinnukylfingurinn til að sigra á atvinnumannamóti þegar hann vann mót á All Thailand Golf Tour aðeins 14 ára gamall í júlí árið 2013, er annar á 5 höggum undir pari.

Margeir golfferð
Margeir golfferð

Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson lék einnig vel á fyrsta hring og er á 4 höggum undir pari, höggi framar en landar sínir, Brooks Keopka og Charles Howell III sem og Ian Poulter frá Englandi.

Í liðakeppninni er það lið 4 Aces GC sem er efst eftir fyrsta hringinn á 11 höggum undir pari einu höggi betur en lið Majesticks GC.

Staðan á mótinu

Leikur á öðrum hring hefst kl. 17:15 í dag á íslenskum tíma en eins og venjan er á mótaröðinni verða allir kylfingar ræstir út samtímis.