Fréttir

Sólin skein á hundsrass á Bergvíkinni
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 21. ágúst 2024 kl. 11:12

Sólin skein á hundsrass á Bergvíkinni

„Ég þorði ekki sjálfur að labba að holunni og athuga hvort boltinn væri í holunni, þetta var ótrúlegt og þótt ég eða besti golfari heims myndi reyna þetta milljón sinnum, þ.e. að miða í fjörugrjót og reyna fara holu í höggi, þá myndi það ekki takast,“ segir Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar UMFG í Grindavík en hann náði draumahögginu á hinni margrómuðu Bergvíkur-holu í Leirunni í gærkvöldi. Það sannaðist heldur betur þarna að stundum skín sólin á hundsrass!

Haukur var ekki að spila sitt besta golf.

„Ég hef oft spilað betur, þurfti oft að spyrja félagana hvar boltinn minn væri en það er víst ekki spurt af því þegar draumahöggið kemur. Þetta högg var samt gott þótt það hljómi furðulega fyrst boltinn fór fyrst í fjöruna, ég miðaði grimmur á pinnann en höggið var bara aðeins of stutt, samt gott högg myndi ég segja. Ég held að það myndi ekki skipta máli hversu lengi ég eða besti golfari í heimi myndi reyna þetta, þ.e. að miða í fjörugrjót og reyna fara þannig holu í höggi, það myndi aldrei takast!“

Kylfingur ákvað að fá viðbrögð hjá spilafélögum Hauks, þeim Einari Guðberg Einarssyni og Jóni Gauta Dagbjartssyni, þeir hafa báðir náð draumahögginu en saga Gauta er athyglisverð en kappinn var með fulla 36 eins og forgjöfin var á þessum tíma, 6. október 2006.

„Ég var tiltölulega nýbyrjaður í golfi á þessum tíma og var ekki nálægt því að lækka mig í forgjöf, svo lélegur var ég enda þótt ég hafi skilað þessu skorkorti inn til að fá draumahöggið staðfest, breytti það litlu. Ég var með fulla 36 í forgjöf sem væri 54 í dag og var svo sannarlega að spila þannig til að byrja með á þessum hring sem átti bara að vera 13 holur hjá okkur félögunum en Húsatóftavöllur var bara 13 holur á þessum tíma. Upp frá 10. holu gerðist eitthvað og allt í einu virtist ég vera með +10 í forgjöf og draumahöggið á þessari gömlu 13. holu var nákvæmlega þannig, hár og flottur bolti sem lenti og rúllaði ofan í holuna. Það var heiðskírt þennan dag, sólin lágt á lofti svo við gátum ekki séð þetta fyrir víst en einn spilafélaganna fullyrti að ég hefði farið holu í höggi. Mitt svar var kostulegt; „Nei Biggi, það getur ekki verið, ég er með 36 í forgjöf!“ 

Gott eða lélegt högg

Þegar kylfingur innti Jón Gauta álits á mati Hauks á draumahögginu stóð ekki á svari kappans; „Hann lýgur því! Höggið var hörmulegt enda hvernig getur högg verið gott sem fer í fjöruna? Þessi bolti hefði endað í hafinu ef hann hefði verið metranum lengri, hann var allan tímann að leita til hægri, slæsaður og lélegur bolti að mínu mati,“ sagði Jón Gauti.

Einar Guðberg er liðtækur golfari.

Engin golfmynd fannst af Jóni Gauta.

Einar Guðberg var fyrirgefanlegri við frænda sinn.

„Ég hef séð mörg verri högg en þetta, boltinn var allan tímann beinn en bara of stuttur. Ég gef ekki mikið fyrir álit Gauta á högginu, að sá maður hafi farið holu í höggi á sínum tíma segir allt sem segja þarf um heppnina sem vissulega þarf að vera til staðar þegar draumahögginu er náð. Auðvitað eru betri kylfingarnir alltaf með meiri líkur en við vitum um marga frábæra kylfinga, jafnvel atvinnukylfinga sem ná þessu aldrei. Ég held að ég muni aldrei verða vitni að öðru eins höggi eins og í gær hjá frænda mínum, þvílíkur grís sem þetta var en ég óska frænda að sjálfsögðu hjartanlega til hamingju með afrekið,“ sagði Einar að lokum.