Smá þreyta hjá Haraldi en góður þátttökuréttur tryggður
„Það var komin smá þreyta í mig eftir langt hausttímabil en ég var búinn að tryggja mér gott kort á Áskorendamótaröðinni (HotelPlanner mótaröðin) á næsta ári og ég átti mjög gott tímabil þar í ár. Getum sagt að það hafi vantað herslumuninn en allt á góðri leið,“ segir Haraldur Franklín Magnús en hann lauk leik á 2. stigi úrtökumótanna fyrir DP mótaröðina á Spáni í síðustu viku. Haddi var nokkur högg frá því að komast á lokaúrtökumótið en þangað komst hann í fyrra.
Hann segir að hann hafi ekki haft miklu vegna áunnins þátttökuréttar 2026 og hann hafi viljað fara í gegnum úrtökumót til að komast á DP mótaröðina.
„Ég var heldur lélegur fyrstu tvo dagana en náði að bjarga mér vel til að eiga ennþá séns á topp 24 sem tryggði mér á lokamótið. Sveiflan var ekki í sinki og mér leið illa yfir boltanum. En ég var frábær á seinni níu holunum þriðja daginn. Spilaði á 29 höggum, sex undir og það kom mér í séns fyrir lokadaginn. Ég byrjaði lokadaginn frábærlega og óð í fuglafærum en boltinn vildi ekki í holu. Svo ég varð að spila grimmt síðustu níu holurnar. Þurfti að fa svona 4-5 fugla en það gekk ekki.“
Haraldur segir að þreyta hafi spilað inn í.
„Heilt yfir fannst mér eg ekki vera að spila eins og ég gerði a tímabilinu. Var bara frekar þreyttur. Núna hef ég góðan tíma í að æfa mig og koma mér í stand fyrir næsta timabil. Þar verður bara allt lagt í að ná korti á Evróputúrnum.
Ég er ánægður að vera komin heim til stelpnanna minna. Mun æfa og vinna fram að að janúar þar sem tímabilið hefst í SuðurAfríku,“ sagði Haraldur.
Haraldur endaði í 63. sæti á Áskorendamótaröðinni 2025. Hann náði best 2. sæti á tímabilinu.

