Sló draumahöggið eftir 39 ár í golfi
Suðurnesjakylfingurinn Óskar Halldórsson gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á Ekkjufellsvelli Golfklúbbs Fljótsdalshéraðs á Egilsstöðum. „Ég er búinn að bíða eftir þessu í 39 ár,“ sagði Óskar sem var í skýjunum eftir að hafa náð loks draumahögginu.
Óskar náði draumahögginu á 2. braut og sló með nítján gráðu blendingi, hitti boltann vel sem lenti rétt fyrir utan flöt, skoppaði nokkrum sinnum og small í holu.
Óskar og Hildur kona hans eru á leiðinni á hjóna og paramót Blush á Katlavelli á Húsavík sem er ein af vinsælustu hjóna- og parakeppnum landsins. Hildur byrjaði í golfi fyrir nokkrum árum til að geta verið meira með bónda sínum sem er duglegur kylfingur. Hún fór holu í höggi í lok apríl sl. á Spáni og þó Óskar hafi fagnað því vel þá jukust áhyggjur hans verulega af því að hafa ekki farið holu í höggi. Þær áhyggjur eru nú á bak og burt.
Nú eru Óskar og Hildur orðin einherjahjón en þeir sem fara holu í höggi ná því að komast í þann einstaka klúbb sem heitir Einherjaklúbburinn.