Fréttir

Rory sýndi styrk sinn í bráðabananum og vann Players
Rory púttar ofan í á 18. flöt og vinnur Players 2025.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 17. mars 2025 kl. 14:38

Rory sýndi styrk sinn í bráðabananum og vann Players

Rory McIlroy sýndi mátt sinn og megin þegar hann tryggði sér sigur á Players mótinu eftir þriggja holu bráðabana við J.J. Spaun í hádeginu í dag en sá síðarnefndi lenti í hremmingum á hinni sögufrægu 17. holu á Sawgrass vellinum í Jacksonville í Flórída.

Rory fékk léttan fugl á fyrstu bráðabanaholunni, hinni 16. sem er par 5. Sló frábært upphafshögg og síðan járn inn á flöt. Spaun náði aðeins pari. Á 17. holunni sló Rory flott högg inn á flöt með 9-járn en sló ekki fullt högg og hélt boltanum þannig í lægra boltaflutgi. Spaun tók 8-járn og vindurinn á móti hafði lítil áhrif á boltann sem flaug vel yfir flötina og í vatnið. Hann lék holuna á þreföldum skolla en Rory sem þrípúttaði fékk skolla og var með  þriggja högga forskot þegar þeir komu inn á 18. teig. Þeir slógu báðir til hægri í upphafshögginu en Rory setti boltann í þriðja höggi 4 metra frá holu á meðan Spaun var lengra frá. Léttur bráðabanasigur hjá N-Íranum á St. Patricks-deginum, þjóðhátíðardegi Íra.

Rory hefur unnið tvívegis á nýbyrjuðu ári og segist vera að leika gott golf. Fyrsta risamótið, Masters, er í apríl og það er risatitill sem Rory vill vinna en hann hefur ekki unnið risamót síðan 2014.

Rory fékk um 600 milljónir kr. fyrir sigurinn en Spaun tæplega 400 millj. kr. fyrir annað sætið.

Rory púttar ofan í á 18. flöt og tryggir sér sinn annan Players titil.

J.J. sló með 8 járni á 17. teig og flaug boltanum langt yfir flöt í vatnið.

Rory byrjaði með látum á 16. braut.