Ragnhildur og Andri landsmeistarar í golfhermum
Ragnhildur Kristinsdóttir og Andri Már Guðmundsson sigruðu á Landsmótinu í golfhermum en mótið var haldið í hinni glæsilegu aðstöðu Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar um síðustu helgi.
Ragnhildur sem er í GR, lék á 13 höggum undir pari og var fimm höggum betri en Eva Kristinsdóttir úr GM. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK varð í 3. sæti á -1.
Hjá körlunum var spenna fyrir lokahringinn en í honum lék Andri Már Guðmundsson úr GM langbest og endaði á -9. Valur Snær Guðmundsson úr GA endaði annar á -4 og í 3.-4. sæti voru Aron Skúli Ingason úr GM og Veigar Heiðarsson úr GA á -2.
Glæsileg verðlaun voru en sigurvegararnir fengu hvor um sig 130 þús. kr. peningaverðlaun. Annað sætið hlaut 50 þús. og 3. sætið 30 þús. kr.
Lokahringurinn var sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og á Facobook síðu GSÍ.