Fréttir

Perla Sól leiðir með 3 höggum eftir tvo hringi í Eyjum
Föstudagur 5. ágúst 2022 kl. 16:08

Perla Sól leiðir með 3 höggum eftir tvo hringi í Eyjum

Hin fimmtán ára Perla Sól Sigurbrandsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur er með þriggja högga forskot í kvennaflokki á Íslandsmótinu í Eyjum. Hún lék annan hringinn á pari eða 70 höggum, sama og fyrsta daginn. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, er þremur höggum á eftir en hún lék á besta skorinu á öðrum hring, 69 höggum, -1. Berglind Björnsdóttir, GR er í þriðja sæti á +6 og Guðrún Brá Björgvinsdóttir er fjórða á +7.

Perla lék aftur stöðugt golf. Tapaði höggum á 8., 9. og 13. braut en fékk fugla á 3., 14. og 15. holu. Ólafía minnkaði muninn í eitt högg eftir 11 holur eftir að hafa fengið örn eða -2 á tíundu holu. Hún tapaði síðan höggum á 11. og 13. braut en fékk svo fugl á 17. holu. 

Það stefnir því allt í spennandi seinni helming mótsins. Þegar þetta er skrifað hefur ekki verið gefið út hvort mótið verði þrír hringir eða 54 holur en það er möguleiki því veðurspáin fyrir fjórða keppnisdaginn er svakaleg. Mótsstjórn hefur ekki enn gefið neitt út.

„Ég spilaði svipað golf en gerði klaufaleg mistök á 8. og 9. braut en hitt var gott. Stöðug golf og ég var bara í svipuðum málum og á fyrsta hring,“ sagði Perla Sól sem hefur vakið mikla athylgi á mótinu því hún er aðeins fimmtán ára gömul.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir (til vinstri) og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á öðrum hring.

Berglind Björnsdóttir á 18. fllötinni. Hún er í 3. sæti.

+Staðan eftir 36 holur: