Neal Shipley upplifði drauminn og lék með Tiger á Masters
Golfhlaðvarpið Seinni níu fékk frábæran gest á dögunum þegar PGA-kylfingurinn Neal Shipley mætti í hljóðver. Shipley var á landinu í síðustu viku og hóf heimsóknina til Íslands á því að koma í Seinni níu.
Shipley er 24 ára gamall og vann sér inn keppnisrétt á PGA-mótaröðinni á næstu leiktíð. Fyrir áhugasama þá kemur Shipley við sögu í þáttunum Full Swing á Netflix.
Saga Shipley er áhugaverð. Hann varð í öðru sæti á Opna bandaríska áhugamannamótinu árið 2023 sem gaf honum keppnisrétt bæði á Masters og Opna bandaríska meistaramótinu árið eftir. Á báðum mótum fór hann í gegnum niðurskurðinn og lék lokahringinn á Masters með Tiger Woods. Hann fer aðeins yfir þá upplifun að leika með Tiger í þættinum.
„Það var ótrúlegt að spila með Tiger. Hann dregur að sér mikinn fjölda áhorfenda. Tiger hreyfir ekki aðeins nálina fyrir golfið í Bandaríkjunum - hann er nálin. Það var draumur fyrir mig að leika með Tiger. Við spjölluðum mikið saman á hringnum. Tiger er mjög venjuleg persóna,“ segir Shipley meðal annars í Seinni níu.
Í ár hefur Shipley staðið sig frábærlega á Korn Ferry mótaröðinni, unnið tvö mót og hefur tryggt sér fullan keppnisrétt á PGA-mótaröðinni á næstu leiktíð.
Shipley hefur skemmtilega tengingu til Íslands en hann er góður vinur Sigurðar Bjarka Blumenstein sem er einn af okkar bestu kylfingum. Þeir voru saman í háskóla í Bandaríkjunum og eru mestu mátar.
Í þættinum fáum við innsýn inn í hugarheim hjá atvinnukylfingi sem er að leika á sterkustu mótaröð í heimi og hvernig það sé fyrir ungan mann að vera kominn á þennan stað.