Fréttir

Mikill vöxtur á Króknum - stækkun vallar á teikniborðinu
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 26. júlí 2022 kl. 12:01

Mikill vöxtur á Króknum - stækkun vallar á teikniborðinu

Golfvellir landsins skarta nú flestir sínu fegursta í hásumri og margir þeirra eru mikið sóttir. Fjöldi valla utan höfuðborgarsvæðisins eru faldar perlur og ekki eins mikið sóttir. Einn þeirra er Hlíðarendavöllur á Krók á Sauðárkróki. 

Kylfingurinn Björn Jóhann Björnsson er tengdur Króknum og var við leik á Hlíðarendavelli nýlega sem hann segir í færslu á Facebook að sé í frábæru standi. 

„Búinn að þvælast um ýmsa golfvelli í sumar en Hlíðarendavöllur à Krók er með þeim allra flottustu og grínin hvergi betri, eiginlega algjört grín hvað þau eru í góðu standi miðað við breiddargráðu! Þetta er algjörlega hlutlaust mat og sagt frá dýpstu hjartans rótum,“ segir Björn.

Í ummælum sem til þekkja segja að völlurinn hafi fengið góða dóma en þar er Guðmundur Árnason, Muggur, vallarstjóri sem hefur unnið frábært starf. 

Sigríður Svavarsdóttir er formaður Golfklúbbs Skagafjarðar og hún segir að það hafi verið mikill vöxtur í starfinu undanfarin ár. „Nýliðanámskeið hafa verið mjög vel sótt hjá okkur, bæði í fyrra og í ár, yfir 60 manns í heildina og það fólk hefur skilað sér að miklu leyti í klúbbinn. Félagar voru um 150 fyrir þremur árum en eru núna nálægt 250 sem er mjög fínt.“ 

Sigríður segir að það í ný samþykktu deiliskipulagi sveitarfélagsins hafi verið gert ráð fyrir stækkun golfvallarins. Ekki séu þó hugmyndir um að stækka í 18 holur en í 12 holur gæti verið raunhæft. „Við erum á dásamlegu svæði undir hlíðinni og 12 holur eru á teikniborðinu. Það gæti verið mjög spennandi og hentugt. Klúbburinn stendur vel fjárhagslega og stemmningin er góð. Við höfum verið að fá þó nokkuð mikið af gestum frá vinavöllum klúbbsins þannig að aðsóknin hefur verið mjög góð,“ sagði Sigríður en kvenfólkið lætur til sín taka í stjórn golfklúbbsins en meirihluti stjórnar er kvenfólk.

Við völlinn er ágætur golfskáli með veitingasölu og fleiru og hann er opinn alla daga.

Sigríður Svavarsdóttir, formaður GSS. Hún fór holu í höggi á Spáni í vor.

Björn Jóhann og golffélagar á góðri stundu á Hlíðarendavelli.