Fréttir

Matsuyama sigraði í bráðabana
Hideki Matsuyama vann í gær sinn áttunda sigur á PGA mótaröðinni.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
mánudaginn 17. janúar 2022 kl. 11:21

Matsuyama sigraði í bráðabana

Lokahringur Sony Open mótsins sem kláraðist í nótt var frábær skemmtun. Russell Henley sem hafði tveggja högga forskot á Hideki Matsuyama lék frábærlega á fyrri níu holunum og það var ekkert sem benti til annars en að hann myndi landa sigrinum örugglega. Henley lék fyrri níu holurnar á 6 höggum undir pari og var 5 höggum á undan Matsuyama.

Matsuyama fékk fugla á 10. og 11. og minnkaði þannig forskotið niður í 2 högg. Hann hélt svo áfram að þjarma að Henley allt til loka. Matsuyama fékk fugl á 18. brautina en Henley missti naumlega af fuglinum og því þurfti bráðabana til að útkljá málin.

Bráðabaninn náði aldrei að verða spennandi. Henley sló teighögg sitt í glompu og þurfti að leggja upp í öðru höggi. Matsuyama sló annað höggið með 3 tré af 250 metra færi og gerði sér lítið fyrir og tryggði sér öruggan örn, sló 80 cm frá holu. Henley átti um 80 metra í þriðja höggi en hitti ekki einu sinni flötina og sigurinn því Matsuyama.

Þetta var 8. sigur Matsuyama á PGA mótaröðinni. Með sigrinum jafnar hann við Suður Kóreu manninn KJ Choi yfir flesta sigra Asíumanna á mótaröðinni.

Þetta var í fjórða sinn á síðustu 15 mánuðum sem Henley er í forystu fyrir lokahringinn en nær ekki að sigra.

Kevin Kisner og Seamus Power urðu jafnir í þriðja sæti fjórum höggum á eftir Matsuyama og Henley.

Lokastaðan í mótinu