Logi er með skýr markmið í golfinu
Vann Meistaramót GS með yfirburðum og varð klúbbmeistari í annað sinn
Afrekskylfingurinn Logi Sigurðsson varð klúbbmeistari Golfklúbbs Suðurnesja í annað sinn í síðustu viku. Minnstu munaði að Logi hefði byrjað mótið á að fara holu í höggi, upphafshögg hans á holu eitt upp á rúma 290m flaug alla leið inn á flöt og lenti boltinn í stönginni! Logi hefur undanfarna vetur dvalið á Costa Ballena á Spáni og mun fara þangað í haust og vonast eftir að taka þátt í nokkrum mótum á Spáni í vetur. Framtíðarmarkmiðin eru skýr, atvinnumennska og ekkert annað.
Logi tók þátt í meistaramóti GS í ágúst og hafði mikið gaman af.
„Það var virkilega gaman að taka þátt og hitta allt fólkið í Leirunni. Ég byrjaði frábærlega, fór næstum holu í höggi á fyrstu holunni á degi eitt, það hefði verið saga til næsta bæjar! Holan er par 4, upphafshöggið var um 290 - 300m og ég hafði strax góða tilfinningu fyrir högginu og grínaðist með að boltinn ætti nú bara að fara ofan í. Það munaði ekki miklu, hann fór í stöngina og ég kláraði púttið fyrir erni. Ég spilaði mjög vel og var farinn að gæla við að slá vallarmetið en fékk bara par á síðustu tvær holurnar. Ég var lélegur á degi tvö og missti niður forskotið en náði mér síðan aftur á strik á degi þrjú og spilaði svo frábærlega á lokadeginum og vann að lokum með ellefu höggum. Það var mjög gaman að koma aftur og spila í meistaramótinu, ég tók síðast þátt árið 2023 og vann þá líka.“
Vindur í seglin árið 2023
Logi hefur verið á ferð og flugi í sumar en árið 2023 urðu straumhvörf hjá honum má segja.
„Að verða Íslandsmeistari árið 2023 gaf mér byr undir báða vængi, ég fór í kjölfarið í úrtökumót fyrir Nordic mótaröðina sem er 3. deildin á norðurlöndum og reyndi svo við Áskorendamótaröðina í fyrra en gekk ekki nógu vel. Ég hef dvalið mikið á Costa Ballena á Spáni á haustin og veturna og er þá bæði að kenna og æfi mig sjálfur. Þegar ég kom heim í vor keppti ég á einu móti og fór svo út og keppti á St. Andrews trophy sem er eitt sterkasta áhugamannagolfmót heims og var tveimur höggum frá niðurskurðinum. Ég kom heim og fór skömmu síðar til Englands á Opna breska áhugamannamótið ásamt fleiri íslenskum kylfingum. Ég spilaði vel í mótinu, var á línunni varðandi að komast í gegnum niðurskurðinn en gekk ekki nógu vel í umspilinu. Þegar ég kom heim tók við Íslandsmótið í holukeppni, ég vann höggleikinn en datt því miður út í 16-manna úrslitunum og svo fór ég með landsliðinu til Írlands að keppa á EM. Við byrjuðum vel á degi eitt en svo hallaði undan fæti og við rétt náðum að halda sæti okkar með tveimur sterkum sigrum í lokin. Á þessari upptalningu sést að ég var talsvert á faraldsfæti í sumar og þegar heim var komið á ný tók Korpubikarinn við, þar lenti ég í sjötta sæti en spilaði frábært golf inn á milli og spilaði m.a. á 29 höggum á níu holum einn daginn. Svo tók Íslandsmótið við og aftur lenti ég í sjötta sæti og aftur náði ég eftirtektarverðum níu holum, spilaði seinni níu í Hvaleyrinni á 30 höggum en þær eru mun erfiðari en fyrri. Næstbesta skor þennan dag var 35 högg svo það sést að ég var heitur þennan dag en það vantaði meiri stöðugleika til að blanda mér virkilega í toppbaráttuna í mótinu,“ segir Logi.
Atvinnumennska draumurinn
Logi getur á sínum besta degi keppt við flesta en hvað vantar hann til að komast lengra og hvar sér hann sig eftir þrjú ár?
„Eins og ég segi oft, ég þarf að bæta mig aðeins í öllum þáttum leiksins. Ef ég bæti mig í upphafshöggum, vippum o.s.frv. þá mun ég ná lengra. Púttin eru líklega minn sterkasti þáttur og ef ég næ meira að slá mig inn á fimm metra í stað tíu metra, gefur auga leið að líkurnar aukast á að púttið fari niður. Ég þarf einfaldlega að vera duglegur að æfa svo ég nái að bæta mig, ég er mjög gott lið í kringum mig, hvort sem er þjálfarar, kýrópraktór, styrktarþjálfari eða sálfræðingur. Ég er ungur og ef ég held áfram á sömu braut þá hef ég fulla trú á að ég verði kominn á fullt í atvinnugolf á innan við þremur árum.
Ég gæti farið í úrtökumót í haust en ég vil frekar gefa mér annað ár í að æfa mig til að verða betri, ég verð talsvert á Spáni í vetur og er þar að æfa við bestu aðstæður og keppi hugsanlega á vetrarmótaröð á suður Spáni, ég er að skoða það. Ég er með skýrt leikskipulag fyrir framtíðina, ég er með stóra markmiðið en til að ná því þarf ég að ná öllum litlu markmiðunum og með því að nálgast þetta á þeim forsendum hef ég fulla trú á að ég verði kominn á Áskorendamótaröðina sem er 2. deildin í Evrópu, jafnvel DP Evróputúrinn sem er næst sterkasta mótaröð í heiminum, eftir þrjú ár,“ sagði Logi að lokum.