Fréttir

Kiðjabergsvöllur útnefndur „Besti golfvöllur Íslands árið 2025“
Laugardagur 15. nóvember 2025 kl. 12:49

Kiðjabergsvöllur útnefndur „Besti golfvöllur Íslands árið 2025“

Kiðjabergsvöllur hefur hlotið hina virtu viðurkenningu Besti golfvöllur Íslands árið 2025 hjá World Golf Awards en þetta er í 12. skipti sem verðlaunin eru veitt. Þetta er annað árið í röð sem völlurinn hlýtur viðurkenninguna.  

World Golf Awards eru hluti af World Travel Awards™, sem voru fyrst afhentar árið 1993 til að verðlauna framúrskarandi árangur í ferða- og þjónustugeiranum um allan heim. Í dag eru World Travel Awards™ viðurkennd alþjóðleg gæðamerki og teljast æðsta tákn um ágæti innan greinarinnar.

Verðlaunahátíðir World Travel Awards™ eru stórviðburðir á alþjóðavísu og sækja þær leiðandi stjórnendur, áhrifavaldar, fjölmiðlar og sérfræðingar úr ferða- og þjónustugeiranum. Alþjóðleg atkvæðagreiðsla hófst í ársbyrjun og lauk í byrjun október. Atkvæði bárust bæði frá fagfólki innan golf- og ferðaiðnaðarins – þar á meðal háttsettum stjórnendum, ferðaskipuleggjendum, umboðsmönnum og fjölmiðlafólki – sem og frá almenningi.

„Það er ótrúlega ánægjulegt að sjá Kiðjabergsvöll hljóta þessa viðurkenningu annað árið í röð. Verðlaunin eru staðfesting á því að vinnan sem lögð hefur verið í völlinn skilar sér bæði faglega og í upplifun þeirra sem spila hann. Vallarstarfsmenn GKB hafa unnið af mikilli ástríðu og metnaði og þetta er sameiginlegur sigur okkar allra“ segir Þórður Rafn Gissurarson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Kiðjabergs.

„Við erum ótrúlega þakklát fyrir þennan heiður. Að vera kjörinn besti golfvöllur Íslands árið 2025, og það annað árið í röð, er gífurleg viðurkenning fyrir allt það ómetanlega starf sem hefur verið unnið á Kiðjabergi í fjölda ára. Sjálfboðaliðar, starfsfólk og stuðningsfólk klúbbsins hafa allir lagt sitt af mörkum. Án þeirra væri þetta ekki mögulegt. Þessi viðurkenning hvetur okkur áfram til að halda áfram á sömu braut og gera völlinn enn betri“ að sögn Guðmundar Ásgeirssonar, formanns Golfklúbbs Kiðjabergs.

Svartur nóvember hjá Golfklúbbi Kiðjabergs.

Golfklúbbur Kiðjabergs býður sérlega hagstætt og spennandi tilboð sem rennur út í lok nóvember: Hringur fyrir tvo ásamt golfbíl á Kiðjabergsvelli sumarið 2026 á aðeins 23.000 kr.

Tilvalið í jólapakkann, afmælisgjöfina, tækifærisgjöf eða einfaldlega fyrir þig sjálfa/n að spila einn besta golfvöll landsins

Áhugasamir geta sent tölvupóst á [email protected] eða haft samband í síma 486-4495.

Guðmundur formaður Kiðjabergs og Jónína kona hans við afhendinguna í fyrra en engin verðlaunaafhending var í ár.