Jóhann með draumahögg í Leirunni í nóvember
„Ég hitti boltann mjög vel en svo hvarf hann okkur sjónum þegar hann bar við stöngina og við héldum að hann hafi farið aftur fyrir hana. Svo var hann bara ofan í og það var ánægjuleg sjón,“ segir Jóhann G. Sigurbergsson, kylfingur í Golfklúbbi Suðurnesja en hann fór holu í höggi á 16. braut á Hólmsvelli í Leiru í gær.
Jóhann var með 19 gráðu trékylfu í draumahögginu en þetta er í fyrsta skipti sem hann fer holu í höggi en oft verið nálægt. „Þetta var gaman. Við fórum á gulu teigana og því var 16. brautin aðeins lengri en vanalega. Það var smá mótvindur en höggið var gott. Snorri spilafélagi minn brosti minna en ég - því hann hefur ekki enn náð þessu,“ sagði Jóhann og hló þegar kylfingur.is spurði hann út í höggið.
Þeir félagar hafa verið duglegir í góða veðrinu að undanförnu og farið oft í Leiruna sem enn skartar sumarflötum. Jóhann sagði völlinn í fínu standi þó það væri komið vel fram í nóvember, enn væri góður grænn litur á vellinum.
Þeir eru með duglegri kylfingum í Golfklúbbi Suðurnesja og aðspurður sagðist Jói alltaf skrifa skorið og hann væri með yfir fimmtíu (pappírs) skorkort heima en þeir færu þó oft bara 9 holur.
Þú hefðir ekkert viljað skrá skorið inn í golfboxið?
„Ég er nú hálfgerð risaeðla og kann það ekki en ég get þó skráð okkur á teig. Við fórum seinni níu holurnar núna. Ég myndi nú frekar vilja hafa völlinn eins og hann var áður, ég kunni betur við það en annars er Leiran búin að vera mjög fín,“ sagði Jóhann.

