Fréttir

Jaðar á Akureyri verður golf-rísort með byggingu hótels
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 13. febrúar 2024 kl. 17:52

Jaðar á Akureyri verður golf-rísort með byggingu hótels

Innan fárra ára munu kylfingar geta kylfingar gist á golfhóteli við Jaðarsvöll á Akureyri. Akureyrarbær auglýsir nýja 3.000 fm. lóð fyrir allt að 150 herbergja hótel við golfvöllinn á Jaðri.

Í tilkynningu Golfklúbbs Akureyrar og bæjarfélagsins í haust kom fram að golfklúbburinn muni ekki standa fyrir byggingu hótels. Í gildandi deiliskipulagi fyrir Jaðarsvöll frá 2011 var afmarkaður byggingareitur fyrir hótel. Byggingarreiturinn er suðaustan við núverandi klúbbhús og afmörkun á svæði fyrir stækkun íbúðarsvæðis meðfram Kjarnagötu.

Talið er að bygging hótels á golfvellinum geti styrkt svæðið sem heilsársútivistarsvæði enda liggur hann upp að útivistarsvæði bæjarins í Naustaborgum og Kjarnaskógi. Með byggingu hótels gefst tækifæri til að styrkja rekstur GA allt árið um kring með aukinni nýtingu bæði golfvallar og inniaðstöðu auk þess að efla almenna ferðaþjónustu á Akureyri.

Gert er ráð fyrir að byggingarréttur lóðarinnar verði seldur og þannig fáist tekjur sem koma til móts við framlag Akureyrarbæjar til uppbyggingar inniaðstöðu fyrir GA. Samningur var undirritaður milli Akureyrarbæjar og Golfklúbbs Akureyrar í september í fyrra um lóðina en einnig um uppbyggingu á inniaðstöðu fyrir GA í nýju húsi vestan við núverandi klúbbhús. Þannig verði öll starfsemi GA á einum stað - og innan fárra ára verði Jaðarsvöllur orðin að golf-rísorti.