Fréttir

Inniaðstaða hjá GA og hótel við Jaðarsvöll
Þarna mun ný inniaðstaða rísa.
Þriðjudagur 19. september 2023 kl. 15:00

Inniaðstaða hjá GA og hótel við Jaðarsvöll

Á dögunum var undirritaður samningur milli Akureyrarbæjar og Golfklúbbs Akureyrar (GA) um byggingu á inniaðstöðu fyrir GA í nýju húsi vestan við núverandi klúbbhús á Jaðri og afmörkun lóðar fyrir nýtt hótel á svæði suðaustan við klúbbhúsið.

Gert er ráð fyrir uppbyggingu á um 600 fm inniaðstöðu að grunnfleti vestanmegin við núverandi golfskála, ásamt kjallara. Með þessu móti má færa alla starfsemi GA á einn stað. Þetta mun styrkja félagsstarf GA til muna og þá sérstaklega yfir vetrarmánuðina.

Í gildandi deiliskipulagi fyrir Jaðarsvöll frá 2011 er afmarkaður byggingarreitur fyrir hótel suðaustan við núverandi klúbbhús golfvallarins. Samkvæmt deiliskipulagi er gert ráð fyrir að hótelið tengist klúbbhúsinu og er ekki afmörkuð sér lóð fyrir hótelið.

Talið er að bygging hótels á golfvellinum geti styrkt svæðið sem heilsársútivistarsvæði enda liggur hann upp að útivistarsvæði bæjarins í Naustaborgum og Kjarnaskógi. Með byggingu hótels gefst tækifæri til að styrkja rekstur GA allt árið um kring með aukinni nýtingu bæði golfvallar og inniaðstöðu auk þess að efla almenna ferðaþjónustu á Akureyri, eins og fram kemur í tilkynningu hjá GA og Akureyrabæ.

Þarna mun hótel rísa í framtíðinni