Fréttir

Henderson í ham
Laugardagur 21. janúar 2023 kl. 06:33

Henderson í ham

Eitt af markmiðum Brooke Henderson fyrir LPGA leiktímabilið í sumar var að koma sér oftar í þá stöðu að geta unnið golfmót. Hún er að gera akkúrat það á fyrsta móti ársins, Hilton Grand Vacations Tournament of Champions. Á fyrstu holunum raðaði Brooke niður fuglum og var komin 9 högg undir par strax á 6. teig á hring 2. Hún lauk leik á 66 höggum og leiðir mótið á 11 höggum undir pari. 

Hinir þátttkaendurnir í mótinu þurftu að hafa sig alla við til að halda í við Brooke. Þar fer fremst í flokki Nelly Korda sem lék á 69 höggum og er fjórum höggum á eftir í heildina. Englendingurinn Charley Hull og Wei-Ling Hsu frá Taiwan léku einnig á 69 höggum og deila þriðja sætinu á sex höggum undir pari.

Brooke lék frábært golf á Lake Nona vellinum í Orlando. „Mér líður eins og ég muni aldrei gleyma þessum hring“ sagði hún. Brooke hefur aðeins fengið einn skolla á fyrstu 36 holunum. 

Nelly Korda fór beint á æfingaflötina að hring loknum til að vinna í púttstrokunni, eftir að hafa mistekist að setja niður pútt úr nokkrum góðum færum. Charley Hull sem undirbjó sig fyrir mótið í Marokkó sagði að sveiflan væri aðeins úr takti og hún hefði þurft að hafa mikið fyrir skori dagsins. Hún þrípúttaði fyrir skolla á lokaholunni og er fimm höggum frá fyrsta sæti.