Heimsþekkt fyrirtæki hannar stækkun Urriðavallar
Hönnuðurinn heillaður af Urriðavelli
„Móðir náttúra hefur gefið ykkur mikla gjöf í þessu landssvæði. Svo er það okkar hönnuðina að nýta okkur það og gera glæsilegar golfbrautir,“ segir Bruce Charlton, yfirhönnuður hjá Robert Trent Jones II golfvallahönnunarfyrirtækinu en það hefur verið ráðið til að hanna níu nýjar brautir á Urriðavelli, golfvelli Oddfellowa á Íslandi.
Heimsþekkt golfvallahönnunarfyrirtæki
Hönnunarfyrirtækið er eitt það þekktasta á sínu sviði í heiminum og er stofnað fyrir 53 árum eða 1972 en fram að því hafði Robert Trent Jones II starfað í samnefndu fyrirtæki föður síns og nafna sem hóf að hanna golfvelli fyrir 1930.
Bruce kom til Íslands tvisvar sinnum síðasta sumar. Fyrir liggur að stækka völlinn um níu holur og verði eftir það 27 holur en fyrir ári síðan var friðlýsing Urriðakotshrauns í Urriðavatnsdölum staðfest. Urriðakotshraun var friðlýst sem fólkvangur en í honum er gert ráð fyrir fjórum viðbótarbrautum golfvallarins. Reiknað er með að stækka völlinn í þrjár áttir og tengja nýjar golfbrautir við þær sem fyrir eru svo allar þrjár 9-holu lykkjur hins stækkaða vallar muni byrja og enda við klúbbhús.
Heillaður af Urriðavelli
„Ég kom hér í lok júní og verð að segja að ég var heillaður af Urriðavelli og ekki síst umhirðunni á honum og í kringum hann. Ég er mjög spenntur að takast á við þetta verkefni, að gera níu nýjar holur í mögnuðu landssvæði sem býður upp á allt til að gera skemmtilegar og glæsilegar brautir,“ segir Bruce en þegar ritstjóri kylfings.is hitti hann var Bruce nýkominn frá Danmörku þar sem hann fylgdist með móti á DP (Evrópu)mótaröðinni en mótið fór fram á Lübker Golf svæðinu í Árhúsum í Danmörku sem RTJ II fyrirtækið hannaði undir forystu Charltons.
„Þetta var ansi gaman. Ég tók þátt í Pro-Am mótinu og fylgdist svo með aðal keppninni. Völlurinn hefur fengið mikla viðurkenningu frá mörgum en þetta er fyrsta golfsvæðið (resort) sem byggt er í Danmörku en það var opnað árið 2008. Þarna voru mættir bestu kylfingarnir á sterkustu mótaröð Evrópu og það var ljúft að heyra ánægju þeirra með völlinn og svæðið.“
Bruce er 67 ára og er einn þekktasti golfvallahönnuður heims og hefur starfað hjá Robert Trent Jones II frá árinu 1981 en hann starfaði einnig aðeins með Robert Trent Jones eldri. Bruce hefur hannað rúmlega fimmtíu golfvelli um allan heim. Bruce hannaði t.d. Chambers Bay völlinn í Washington en þar hefur Opna bandaríska risamótið m.a. verið haldið. Það þótti því stórfrétt hér heima að hann yrði hönnuður að stækkun Urriðavallar.
Teiknaði í kirkjunni
Kappinn segist hafa verið með áhuga á golfi og golfvallahönnun frá unga aldri. „Ég ólst upp á 9 holu velli í Iowa þar sem fjölskylda mín bjó. Lék golf á mínum heimavelli og fylgdist einnig með golfvallarumhirðunni. Þegar ég var yngri nýtti ég tímann í messum þegar ég fór til kirkju með móður minni til að rissa á kirkjublöðin sem við fengum, auðvitað í laumi. Mamma tók reyndar stundum blöðin af mér en ég var þá iðulega með fleiri blöð í jakkavasanum svo ég hélt áfram þó augnaráð móður minnar væri ekki fallegt. Golfvallarumhirðan heillaði mig en ég var orðinn ágætur kylfingur og langaði mig að reyna fyrir mér í háskólagolfi í Arizona en fann fljótlega að ég hafði ekki nógu mikla hæfileika til að verða framúrskarandi kylfingur. Ég einbeitti mér því að því að ljúka námi í landslagsarkitektúr og lauk því frá háskólanum í Arizona.“

Fékk draumastarfið
Eftir námið fékk hann fljótlega draumastarfið hjá Robert Trent Jones II sem hafði starfað með föður sínum en þeir ákváðu að fara sitt hvora leiðina í rekstrinum og sammæltust um það að skipta á milli sín Ameríku við Missisippi ána. Annar tæki vesturhlutann og hinn austurhlutann. Það gekk ágætlega í all mörg ár en sá gamli átti þó til að teygja sig yfir. Síðar sameinuðust þeir svo í ýmsum verkefnum. Fyrirtæki þess yngra, Robert Trent Jones II, hefur hannað tæplega 300 golfvelli í 45 löndum og sex heimsálfum. Það er því óhætt að segja að forráðamenn Urriðavallar hafi dottið í lukkupottinn þegar þeir fengu eitt þekktasta hönnunarfyrirtæki heims til að hanna nýju níu holurnar.
Magnað landssvæði í Urriðavatnsdölum
Bruce segist mjög heillaður af Urriðavelli og svæðinu öllu. Segir það magnað hvernig hraunið sé í landslaginu, gróðurinn á svæðinu fjölbreyttur og verkefnið sé gríðarlega spennnandi.
„Landið er frábært, jarðvegurinn, útsýnið, hæðamismunur, grjót, hraun og vatn. Þetta er norrænt landssvæði og ég hef ekki unnið í slíku áður en þó eitthvað svipað t.d. í Kanada. Ég er strax búinn að sjá nokkrar frábærar brautir og flatarstæði fyrir mér. Þetta er einstakt landssvæði. En við þurfum líka að taka tillit til margra þátta, til dæmis sjálfbærni og hver eru markmið eigenda svæðisins (Oddfellowa á Íslandi). Það þarf að huga að praktískum þáttum og ekki síst rekstrinum, til dæmis þurfa allar níu holurnar að enda nálægt klúbbhúsinu. Þannig verður hægt að ná fram bestri nýtingu á 27 holu svæði. Hér er fólk sem leikur golf og hefur skoðanir á golfvellinum. Stundum fáum við hönnunarverkefni þar sem eigandinn segir bara: Hanniði flottan golfvöll. Okkur er alveg sama hvernig hann verður. Við treystum ykkur. Lokamarkmiðið okkar að hönnun lokinni er að golfvöllurinn á að líta út eins og hann hafi verið á svæðinu í áratugi.“
Alþjóðlegur keppnisvöllur
Við spyrjum Bruce út í hugmynd Júlíusar Rafnssonar, fyrrverandi forseta GSÍ um að á þessum 27 holum verði hægt að vera með 18 holu keppnisvöll sem gæti hýst stærri golfmót og fyrir atvinnumenn. „Það er góð hugmynd og mjög spennandi. Það eru vissulega til slík dæmi, t.d. í Ástralíu á Royal Melbourne vellinum sem er 36 holur. Þar eru brautir frá báðum 18 holu völlunum nýttar í keppnisvöll þar sem stórmót fara fram. Þetta verður krefjandi púsl og þar er stærsta atriði tengingin við klúbbhúsið. Við munum nýta veturinn í hönnun og förum vonandi langt með hana þannig að hægt verði að gera eitthvað á næsta ári í framkvæmdum.“
Sá næsti er alltaf besti
Það er ekki hægt að sleppa hönnuði fimmtíu golfvalla öðruvísi en að spyrja hver sé sá besti eða hver sé í uppáhaldi?
„Veistu….að næsta verkefnið er alltaf best. En það má ekki gleyma því þegar þú spyrð um þetta að eftir rúm fjörutíu ár í bransanum er það alltaf fólkið sem maður vinnur með sem er best. Ég hef verið mjög heppinn að hafa unnið með stofnendunum fyrirtækisins, báðum feðgunum, þó ég hafi aðallega unnið með þeim yngri. Þetta nýja verkefni á Íslandi er áskorun og mjög spennandi verkefni.“
Aðspurður um hvaða þýðingu það geti haft fyrir Urriðavöll að hafa nafn Robert Trent Jones Jr. II á honum segir hann að það eigi örugglega eftir að hafa góð áhrif. „En ekki bara fyrir Urriðavöll. Líka fyrir okkur. Það skiptir okkur máli að verkefnið gangi vel,“ segir þessi viðkunnanlegi kylfingur og golfvallahönnuður.
Kjósa frekar að ganga og virða náttúruna
Við erum að ljúka spjallinu þegar Bruce segir eitt mjög áhugavert fyrir Ísland. „Það er mikill munur á kylfingum hér og t.d. í Bandaríkjunum. Íslendingar vilja nota fæturna til að ganga og helst ekki nota golfbíl sem flestir samlanda minna gera. Þá finnst mér viðhorf ykkar á Íslandi líka vera miklu betra til náttúrunnar. Íslendingar bera mikla virðingu fyrir henni sem er auðvitað mjög jákvætt. Þó svo að opnunartími golfvalla sé styttri en víða úti í heimi þá má ekki gleyma því að þið eruð með langa sólarhringa til að leika golf þó svo mánuðirnir séu færri,“ sagði Bruce Charlton.
Bruce er afar hrifinn af öllum aðstæðum og golfvellinum í Urriðavatnsdölum.