Haraldur tryggði sér inn á 2. stig úrtökumótanna
„Þetta var erfitt mót, sjötta vikan í röð í keppni,“ sagði Haraldur Franklín Magnús en hann var í 22. sæti á 1. stigs úrtökumóti fyrir DP Evrópumótaröðina í Ebreichsdorf í Austurríki. Haraldur lék á ellefu höggum undir pari og vann sig upp um tíu sæti á lokadeginum.
Haraldur lék jafnt og gott golf en keppnin er hörð á þessum mótum og lokahringur upp á -4 rétt dugði í 22. sætið en þeir sem voru á því skori voru þeir síðustu inn í næstu umferð. Haraldur fékk 16 fugla og einn örn í mótinu.
Þrír aðrir íslenskir kylfingar tóku þátt í mótinu. Andri Þór Björnsson var þrjú högg frá því að komast áfram, endaði í 37. sæti og lék á -8. Bjarki Pétursson endaði á -5 og í 42. sæti. Hákon Örn Magnússon lék 36 holurnar á sjö yfir pari og komst ekki í gegnum niðurskurðinn.
Þeir Aron Snær Júlíusson, Sigurður A. Garðarsson og Hlynur Bergsson kepptu nýlega á Millennium vellinum í Belgíu og komust ekki áfram. Aron og Sigurðr enduðu í 36. sæti, báði á -9 en Hlynur Bergsson komst ekki í gegnum niðurskurðinn. Axel Bóasson komst beint inn á 2. stigið en hann hefur leikið vel á Nordic mótaröðinni. Annað stigið verður leikið 2.-5. nóvember á fjórum völlum á Spáni. Guðmundur Ágúst Kristjánsson sem hefur leikið á DP Evrópumótaröðinni á þessu tímabili kemst beint inn á lokaúrtökumótið, takist honum ekki að halda þátttökurétti sínum. Það fer fram á Infinitum völlunum við Tarragona á Spáni 10.-15. nóvember.
Axel Bóasson leikur á 2. stiginu.