Haraldur Franklín stóð sig vel í Írlandi - nóg framundan
Haraldur Franklín Magnús, atvinnukylfingur úr GR, stóð sig vel á Irish Challenge mótinu sem fram fór á Killeen Castle vellinum á Írlandi í síðustu viku. Mótið er hluti af Áskorendamótaröðinni sem er sú næst sterkasta í Evrópu. Haraldur lenti í 14-18. sæti og hlaut rúmar sexhundruð þúsund krónur í verðlaunafé.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson sem er líka í GR, tók einnig þátt í mótinu en komst ekki í gegnum niðurskurðinn.
Haraldur var ánægður með frammistöðu sína í mótinu og var á leiðinni á næsta mót þegar Kylfingur hafði tal af honum.
„Við Guðmundur Ágúst fylgdumst með Íslandsmótinu og hefðum gjarnan viljað spila á því en sem atvinnumenn verðum við að láta Evrópumótaröðina ganga fyrir. Völlurinn sem við lékum á í Írlandi, Killeen Castle, er svívirðilega erfiður og ekki bætti úr skák að það var ansi mikið rok. Solheim cup fór fram á þessum velli og vonandi verður Opna írska mótið haldið á þessum velli árið 2029. Ég var nokkuð sáttur við mína spilamennsku, hún var kannski of stöðug eins furðulega að það kann að hljóma, það vantaði herslumuninn á að koma mér fyrir alvöru í baráttuna.“
Mikið framundan
„Ég er á leiðinni í mót í Finnlandi, fer þaðan í mót í Hollandi, það eru stór mót framundan. Ég kem eitthvað heim og næ vonandi að taka þátt í móti þar en fyrst er að klára tímabilið hér með stæl. Ég tók gott stökk á stigalistanum, fór upp um einhver 42 sæti og er í 159. sæti. Ég hef reyndar bara náð að klára sex mót í sumar og ætla mér að enda þetta tímabil vel.
