Hægt að fá forgjöf á styttri völlum
Ný uppfærð útgáfa af forgjafarkerfinu tekur gildi í byrjun næsta árs 2024 en frekar litlar breytingar verða á kerfinu frá því sem nú er. Helstu breytingarnar verða kynntar í byrjun árs 2024 en þar ber hæst að lágmarkslengd golfvalla breytist.
Lágmarkslengd golfvalla sem samþykktir verða til vallarmats og vægis verður minnkuð úr 2.745 metrum í 1.370 metra fyrir 18 holur og úr 1.370 metrum í 685 metra fyrir 9 holur. Því mun vallarmatsnefnd golfsambandsins byrja næsta sumar á því að meta alla golfvelli þar sem þessi breyting opnar á. Sem dæmi um velli eru Ljúflingur, Thorsvöllur, Sveinkotsvöllur sem hægt verður að skila inn forgjafarhringjum á næsta ári. Eins bíður þetta upp að möguleika að gera styttri teiga á lengri völlum sem gilda þá til forgjafar. Þetta kemur fram í skýrslu stjórnar GSÍ sem flutt var á golfþingi 10.-11. nóvember.