Gulli í góðum gír - endaði í 3. sæti í sterku háskólamóti
Gunnlaugur Árni Sveinsson er sjóðheitur í háskólagolfinu í Bandaríkjunum. Í síðasta móti, Pauma Valley Invitational, hafnaði hann í 3. sæti á sjö undir pari, 69-70-67. Gulli lék frábært golf í lokahringnum og tapaði ekki höggi en fékk fjóra fugla.
Skólinn sem hann nemur við sigraði í liðakeppninni með tíu högga mun en í mótinu voru sex af sjö bestu skólunum í efstu deildinni, NCAA.
Mótið var eitt allra sterkasta háskólamót á þessu skólaári en af 20 efstu kylfingum á heimslista áhugakylfinga voru 8 á meðal þátttakenda í mótinu.
Gunnlaugur Árni hefur náð mögnuðum árangri á þessu skólaári. Hann hefur náð besta árangri allra nýliða í háskólagolfinu og þegar heimslisti áhugakylfinga verður uppfærður næsta miðvikudag mun hann í fyrsta skipti vera á meðal 50 bestu áhugakylfinga heims!